Auglýsing

Var tilneydd til að hægja aðeins á sér

Söngkonan Erna Hrönn Ólafsdóttir á langan feril í tónlistinni og margir þekkja hana líka úr útvarpinu þar sem hún var þáttastjórnandi um árabil. Hún hefur alltaf haft nóg að gera, rekið stórt heimili og sagt já við öllum þeim verkefnum sem hún hefur getað. Dag einn kom að því að líkaminn sagði hingað og ekki lengra.

Við tók endurhæfing hjá Virk og smám saman hefur Erna Hrönn náð að vinna úr gömlu áfalli sem hafði meiri áhrif á hana en hún gerði sér grein fyrir. Henni var nauðgað árið 2007 og kærði gerandann. Þeim kafla er nú lokið og Erna Hrönn horfir björtum augum fram á veginn. Hún er líka búin að finna aftur gleðina í söngnum sem hún var búin að týna.

Þetta er brot úr lengra forsíðuviðtali Vikunnar.

„Ég er komin á þann stað að ég tek í alvöru bara einn dag í einu og eitt verkefni í einu,“ segir Erna Hrönn um leið og hún skenkir blaðamanni kaffi í bolla á fallegu heimili sínu í Kópavoginum. „Ég klessti harkalega á vegg en það kannski þurfti bara að gerast svo ég gæti spyrnt í botninn og komið mér upp af honum. Í raun var þetta búið að vera langur aðdragandi að þessu skipbroti. Ég varð ólétt á lokaári mínu í Menntaskólanum á Akureyri og eignaðist son minn tveimur mánuðum eftir útskrift.

Tæplega tveimur árum seinna kom svo dóttir mín í heiminn þannig að ég var orðin tveggja barna móðir þegar ég var tuttugu og tveggja ára, og einstæð í ofanálag því ég hætti með barnsföður mínum þegar ég gekk með hana. Ég þurfti því snemma að axla mikla ábyrgð. Það var yndislegt að verða mamma en auðvitað líka dálítið sjokk þar sem ég var svo ung. Hlutirnir gerðust hratt. Svo kynntist ég núverandi manninum mínum, Jöra, þegar ég var 29 ára. Við byrjuðum fljótlega að búa og ég var þar með orðin fimm barna móðir á einu bretti, því hann átti þrjár stelpur fyrir og ég mín tvö börn. Við eignuðumst dóttur okkar, Júlíu Dís, árið 2012 en skömmu áður en hún kom undir missti ég fóstur, komin tólf vikur á leið. Ég var varla búin að ná að átta mig á því að ég hefði misst fóstrið þegar ég varð ólétt mánuði síðar. Síðan auðvitað kom þetta leyndarmál, sem ég hafði borið á bakinu í mörg ár, upp á yfirborðið í viðtali hjá Snæbirni Ragnarssyni í hlaðvarpsþættinum hans, Snæbjörn talar við fólk, en ég átta mig ekki á því fyrr en ég byrja í minni sjálfsvinnu hvað þetta allt hefur haft mikil áhrif á mig og mitt líf.“

Um haustið 2019 sagði Erna Hrönn upp starfi sínu á útvarpsstöðinni K100 og átti um það bil mánuð eftir af uppsagnarfresti sínum þegar líkami og sál sögðu hingað og ekki lengra. „Þetta var 21. nóvember,“ segir hún hugsi, „ég man það af því að amma mín heitin hefði átt afmæli næsta dag. Ég var í fríi því ég var að fara að syngja í jarðarför í fjölskyldunni. Ég var að setja litla ferðatösku upp á skáp og rak hana í þannig að það kom svona svart strik í loftið og lífið bara hrundi.

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga

 

Mér fannst ég algjör aumingi, aldrei geta gert neitt rétt án þess að klúðra málum og varð alveg ómöguleg. Jöri fór með mér upp á heilsugæslu þar sem ég hitti lækni og hann skrifaði mig í veikindaleyfi. Ég fór samt og söng í jarðarförinni, tók bara eina kvíðastillandi töflu sem læknirinn hafði skrifað upp á fyrir mig,“ segir Erna Hrönn og hristir höfuðið líkt og í vantrú, „og stóð mig bara mjög vel. Enda var ég bara á sjálfsstýringu eins og ég var vön. Manni finnst maður ekkert geta bara kúplað sig út og skriðið undir sæng, þótt mann langi það mest af öllu, það er alltaf einhver sem treystir á mann. En þarna var ég tilneydd til að fara að hægja aðeins á mér.“

Í samráði við heimilislækninn sinn sótti Erna Hrönn um hjá Virk og hóf endurhæfingu nokkrum mánuðum síðar, í mars 2020. „Ég hafði heyrt um Virk en vissi í raun ekki hvað í því fólst nákvæmlega að fara þangað í endurhæfingu en guð minn góður, það var bara það besta sem fyrir mig gat komið. Ég byrjaði akkúrat á sama tíma og COVID fór að gera vart við sig hér og það var líka mjög gott því þá fékk ég bara algjöran frið til að sinna sjálfri mér og púsla mér saman aftur.“

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing