Vinnueftirlitið hefur bannað brugghúsum um allt land að nota ákveðin bruggtæki við framleiðslu á bjór vegna sprengjuhættu.
Um er að ræða kínversk bruggtæki. Samkvæmt vinnueftirlitinu geta tækin sprungið þegar ákveðinn þrýstingur myndast í þeim og telja þeir að þetta geti skapað hættu gagnvart gestum og starfsmönnum brugghúsanna. Sjö af þeim tíu fyrirtækjum sem nota bruggtækin hafa kært ákvörðun Vinnueftirlitsins til velferðarráðuneytis. Greint var frá þessu á vef Stundarinnar.
Ekki er vitað hvort búnaðurinn sé enn í notkun hjá þessum aðilum en framleiðendurnir sem um ræðir eru RVK Brewing Company, JG Bjór og Bastard Brew & Food í Reykjavík, Ölverk í Hveragerði, Jón Ríki á Höfn, Smiðjan Brugghús í Vík, Brugghúsið Draugr í Hvalfirði, Dokkan brugghús á Ísafirði, The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum og Austra Brugghús á Egilsstöðum.
Í tilkynningu sem vinnueftirlitið gaf frá sér sumar varðandi bruggtækin segir að búnaðurinn uppfylli ekki þær öryggiskröfur sem lög segja um.
„Vinnueftirlitið lítur það alvarlegum augum þegar slíkur þrýstibúnaður er í notkun þegar ekki liggur fyrir með viðunandi hætti að búnaðurinn uppfylli þær öryggiskröfur sem gerðar eru til þeirra lögum samkvæmt. Ef slíkur búnaður uppfyllir ekki þær öryggiskröfur sem gerðar eru til hans þá er sprengihætta af honum.“
Þá segja þeir einnig að sprengihætta geti skapast við notkun á búnaðnum.
„Alltaf þegar um er að ræða samþjappaðar lofttegundir getur skapast sprengihætta og eykst hættan þegar tankarnir stækka (rýmdin eykst) og þrýstingur eykst. Getur því veruleg hætta stafað af slíkum búnaði sem staðsettur er þar sem fólk er, hvort sem það er að störfum eða sér til ánægju.“