Systurnar Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur eru báðar grænkerar, eða vegan, og halda úti blogginu Veganistur. Þær urðu strax heillaðar af vegan lífstílnum eftir að hafa kynnst honum fyrir átta árum, fyrir algjöra tilviljun.
Fljótlega eftir það opnuðu þær uppskriftasíðu þar sem þær deila uppskriftum og upplýsingum um vegan lífsstíl.
„Manneskja sem er vegan reynir eftir fremsta megni að forðast að nota dýraafurðir í daglegu lífi, í mataræði, afþreyingu og fatnaði. Maður fer ekki út í þær öfgar að neita sér um lyf og annað sem maður þarf á að halda. Þetta snýst ekki um að vera fullkominn heldur að nota ekki dýraafurðirnar þegar maður þarf þess ekki,“ segir Helga María en þær systur voru heimsóttar í Íslandi í dag nú á dögunum.
„Ég er búin að hafa áhuga á matargerð frá því ég var pínulítil og ætlaði alltaf að verða kokkur. Horfði á Jóa Fel þegar ég var sex ára með stjörnur í augunum og var alltaf inni í eldhúsi að fylgjast með matargerð og hafði mikinn áhuga,“ segir Júlía.
Þær segja þó að áhuginn hafi kviknað hjá Helgu eftir að hún hafi orðið vegan.
„Það byrjaði svoleiðis hjá mér að ég eiginlega sá eitthvað vídeó sem mér fannst áhugavert um stelpu sem hafði verið mikið veik og ég hafði verið mikið veik eftir einkyrningssótt. Hún hafði orðið vegan og heilsan batnað og ég ákvað bara að prófa og heilsan batnaði,“ segir Helga. „Mér fannst þetta svo spennandi að ég leit aldrei til baka.“
Þær systur sýndu áhorfendum í Íslandi í dag hvernig þær búa til vegan rjómapasta frá grunni og má finna uppskriftina hér eða í nýútgefinni uppskriftabók þeirra.