Auglýsing

„Við bara höfum það of gott“

Rakel Garðarsdóttir var sæmd heiðursmerki Hinnar íslensku fálkaorðu, ridd­ara­krossi, árið 2021 fyr­ir fram­lag sitt til að efla vit­und um mat­ar­sóun, betri nýt­ingu og um­hverf­is­mál.

Hún er framleiðandi hjá leikhópnum Vesturport, aktívisti, húmanisti og stofnandi og framkvæmdastýra samtakanna Vakandi, sem vinna að vitundarvakningu um betri nýtingu á mat. Rakel stofnaði húðvörumerkið Verandi sem framleiðir hágæða húð- og hárvörur úr hráefni sem falla til við aðra framleiðslu en yrði annars hent. Hún lætur sig margt varða en allt viðkemur það því að bæta heiminn og sýna mannúð og kærleika. Fyrir stuttu síðan aðstoðaði hún úkraínskar mæðgur við að komast úr stríðshrjáðu heimalandi sínu hingað til lands. Það var því af mörgu að taka fyrir blaðamann þegar hann undirbjó sig fyrir viðtalið, þótt vissulega hafi Rakel verið hvað mest áberandi í umræðunni um matarsóun.

„Ég er reyndar alltaf að benda fólki á að það sé ekki að gera mér neinn persónulegan greiða með því að henda ekki mat,“ segir Rakel hlæjandi þegar blaðamaður afsakar hálfklárað rúnstykki á borðinu, í þeirri mund sem Rakel mætir í viðtalið, og segist ekki ætla að henda því heldur klára það á eftir. „Það að við eigum ekki að henda mat er í aðeins stærra samhengi en svo að bara ég verði pirruð.“

Rakel hefur verið áberandi síðustu árin í umræðunni um matarsóun, eða öllu heldur umræðunni um mikilvægi þess að spornað sé við matarsóun. Hvernig skyldi áhuginn á málefninu hafa kviknað, og hvenær? „Ég las grein í Morgunblaðinu árið 2010 þar sem farið var yfir hvað Íslendingar hentu miklum mat og mér blöskraði bara, þá aðallega vegna kostnaðarins við þetta sem var og er gígantískur. Um það bil tveimur árum seinna fór ég að pæla í umhverfisáhrifunum og svo sá ég bara strax hvað þetta er fáránlegt.

Það að henda mat er margþætt vandamál og þar spilar mjög margt inn í; ekki aðeins sóun á mat heldur mörgum auðlindum, dýrum, landsvæði, vatni og vinnuafli. Öll keðjan er undir í raun. Ég held að við áttum okkur ekki alltaf á því að þetta er risavaxið vandamál og hversu margt annað væri hægt að leysa, einfaldlega með því að hætta að henda mat. Einhverra hluta vegna virðist það bara vera mjög erfitt fyrir marga. Kannski af því að við erum orðin svo aftengd því hvaðan matur kemur og hvað í honum felast mikil verðmæti svo við berum ekki jafnmikla virðingu fyrir því og áður.

Margir vilja meina að matur sé of ódýr, ef hann væri dýrari myndi fólk kannski frekar fara betur með hann. Fæstir hella t.d. mjög dýru rauðvíni niður en hika ekki við að hella því ódýra í vaskinn. Svo er það góðærið, við bara höfum það of gott.“

Elskar Noreg og vinnur að ferðaþáttum um landið

Rakel fæddist í Noregi og bjó þar til fjögurra ára aldurs. Fjölskyldan flutti svo aftur frá Íslandi til Noregs fimm árum síðar og dvaldi þar í eitt ár. Móðuramma Rakelar bjó í Noregi svo fjölskyldan fór í heimsókn til hennar á hverju sumri. Rakel segist elska Noreg og hún hafi í mörg ár reynt að selja vinum sínum þá hugmynd, eða staðreynd, að Noregur sé hipp og kúl. „Einhverra hluta vegna trúa þeir mér ekki. Nú er ég að vinna að sjónvarpsþáttaröð fyrir Sjónvarp Símans, ferðaþætti um Noreg, til að sannfæra alla um að ég hafi á réttu að standa,“ segir hún og hlær létt. „Þetta eru svona aðeins öðruvísi ferðaþættir en hafa verið sýndir hingað til.

Ég og Nína Dögg, leikkona sem er mágkona mín og góð vinkona, gerum þessa þætti saman ásamt Ágústu Ólafsdóttur. Þeir fjalla eiginlega um tvær miðaldra kerlingar í hláturskasti á ferðalagi um Noreg. Nei, nei. Og þó. Þetta eru mjög einlægir og mannlegir ferðaþættir sem verða sýndir í haust og ég hlakka mikið til að sjá lokaútkomuna. Ég skil ekki hvers vegna norska sendiráðið hefur ekki komið mér á launaskrá því það eru örugglega fáir sem elska Noreg jafnmikið og ég og hafa verið jafnmiklir talsmenn fyrir landið,“ segir hún hlæjandi.

 

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga

 

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing