Systurnar Dóra Björt og Sigrún Lilja Guðjónsdætur eru báðar þekktar í íslensku samfélagi, hvor á sínu sviði. Þær eru mjög ólíkar en einstaklega samrýndar systur sem leita oft fyrst ráða hvor hjá annarri. Þær hafa glímt við erfiðleika og gengið í gegnum mikla sjálfsvinnu. Í dag eru þær hamingjusamar og ástfangnar, önnur nýorðin móðir og hin gengur með desemberbarn.
„Við erum bestu vinkonur og leitum til hvor annarrar í öllum lífsins verkefnum og áskorunum og erum mikill styrkur hvor fyrir aðra. Það sem ég kann best að meta við okkar samband er ómælt umburðarlyndi sem við berum í garð hinnar, við erum ekki að reyna að breyta hvor annarri og við virðum ólíka eiginleika okkar, stöndum saman í öllu og lyftum hvor annarri til flugs,“ segir Dóra.
„Það er margt sem við erum ósammála um. Sem dæmi þá fór mamma alltaf með okkur í Garðheima fyrir jólin og þar lentum við gjarnan í eldheitu rifrildi, af því ég vildi stílhreint jólatré helst með silfri og svörtum kúlum, meðan Dóra vildi grænt tré með kúlum í öllum litum, það væri heimilislegt og kósí. Við rifumst alla leiðina heim um þetta mál,“ segir Sigrún hlæjandi. „Í dag áttum við okkur á að þótt við séum með ólíkan stíl, er það bara allt í lagi. Það er líka lífsviðhorf okkar að við leyfum fólki að vera eins og það er og við erum miklu forvitnari um fólk en dæmandi.“
ADHD, einelti og neikvæð sjálfsmynd
Systurnar fóru báðar í menntaskóla og þrátt fyrir ágætis einkunnir og að hafa lokið námi reyndist það þeim erfitt, þó með mismunandi hætti. „Ég fór í gegnum stúdentspróf án þess að lesa nokkra bók, ég var með svo mikinn athyglisbrest sem á þeim tíma var ákveðinn stimpill,“ segir Sigrún sem var greind með ADHD 24 ára gömul. „Áður en ég fékk greininguna var ég oft lítil í mér, ég fékk sem dæmi nýja vettlinga í hverri viku sem barn af því ég gat ekki komið heim með vettlingana mína. Ég var samt rólegt barn þar til á unglingsárunum þegar ég fór í þvílíkan mótþróa, kom heim með tattú, litað hár og gat í vörinni. Ég var rosalega erfiður unglingur einfaldlega af því ég passaði hvergi inn,“ segir Sigrún sem segist í dag algjör bókaormur og elska að hlusta á hljóðbækur eftir að hún fór á ADHD-lyf.
„Áður skammaðist ég mín fyrir að missa athyglina í samræðum, í dag segi ég einfaldlega: „Ég er með athyglisbrest, viltu endurtaka það sem þú sagðir?“ Ég fór í greindarvísitölupróf í greiningarferlinu og það kom mér skemmtileg á óvart að ég er bara ekkert heimsk eins og ég hélt ég væri,“ segir Sigrún og hlær. Hún byrjaði ung að vinna í fyrirtæki foreldra þeirra þar sem hún fann köllun sína. „Ég hafði fylgst með foreldrum okkar og tengdaforeldrum mínum í rekstri og sjá hvað þetta var mikil vinna og oft erfitt. Þannig að ég ætlaði aldrei að fara í rekstur. Fyndið hvað maður ákveður og svo er það eiginlega bara mín köllun að vera í rekstri, ég hef ekki verið í launþegastarfi frá því um tvítugt,“ segir Sigrún. Í fjölskylduferð í Egyptalandi fékk hún hugmyndina að Gyðju, lét framleiða skópar og tösku og fengu vörurnar góðar viðtökur hér heima. „Ég var komin með framleiðslu og vörumerki og þá hafði ég ekki tíma til að fara meira í skóla. Gyðja stækkaði hratt og gekk ótrúlega vel í langan tíma og var mikill lærdómur.“
Dóra fór á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum við Hamrahlíð og sá fyrir sér að vinna við eitthvað tengt skrifum en á tímabili hugsaði hún sér að verða læknir. „Ég veit ekki alveg af hverju, líklega af því ég var með góðar einkunnir og hugmyndin í samfélaginu var að gott væri að nýta slíkt í lækninn. Svo var það mín stóra blessun að ég komst ekki í læknisfræði í Ósló en í öðru sæti hafði ég valið heimspeki. Þá tóku við efasemdir um að það væri ekki hagnýtt nám,“ segir Dóra. Sigrún ákvað þá að taka stjórnina og fara með Dóru í draumadaginn hennar.
„Það er svona hugsunartilraun sem felst í því að ég lagðist í rúmið og lokaði augunum og Sigrún sagði mér að sjá fyrir mér draumadaginn. Hvar ég er, hvernig ég fer á fætur, hvað ég er að fást við, hvað er skemmtilegt, hvernig mér líður. Þá skildi ég að það eru félags- og hugvísindi, vinna með fólki og hugmyndir og að skrifa sem er mín köllun og heimspekin því rétt skref fyrir mig,“ segir Dóra, sem ætlaði á þessum tíma aldrei í stjórnmálin. „Ég bjó í sjö ár erlendis og ætlaði á árinu 2016 að koma heim og aðstoða aðeins í kosningabaráttunni og fara svo út aftur, en það varð ekki aftur snúið. Það var einhver ástríða og eldur sem kallaði á mig og mig klæjaði í puttana að laga ýmislegt í íslensku samfélagi og gera það réttlátara.“
Dóra segist alltaf hafa verið með mjög góðar einkunnir í námi, en í MH var hún lögð í einelti af tveimur kennurum líklega vegna þess að hún hafi verið hvatvís og hispurslaus og farið í taugarnar á þeim. Hún segir þetta hafa haft mjög neikvæðar afleiðingar fyrir hennar sjálfsmynd. „Þó að ég héldi á þeim tíma að eineltið hefði ekki haft afleiðingar þá situr það í manni þegar fullorðið fólk gengur langt í að rífa þig niður, segja þér að það verði ekkert úr þér og að þú munir falla í áfanganum. Þegar ég var komin í pólitíkina þurfti ég að kljást við þetta aftur þegar verið er að berja á þér með þeim skilaboðum að þú værir ömurleg. Við erum öll með efasemdir um okkur sjálf og ef þú ert með viðkvæma sjálfsmynd er það krefjandi að mæta svona mikilli neikvæðni í þinn garð,“ segir Dóra, sem vann úr neikvæðri sjálfsmynd sinni og var á sama tíma greind með ADHD.
„Öll augnablik sem höfðu kynt undir neikvæðri sjálfsmynd minni voru svona ADHD-augnablik. Ég hef verið í aðstæðum þar sem fólk hefur ákveðnar hugmyndir um hvernig ég á að vera, reynt að kljást við þær hugmyndir og það er eins og mara leggist á mig og ég set upp grímu og allt þetta er mjög takmarkandi. Svo fékk ég greininguna og ég skildi að leiðin til hamingjunnar fyrir mig væri að láta þessa grímu falla, vera meira ég sjálf og láta mér standa á sama um hvað öðrum finnist.“
Þetta var brot úr forsíðuviðtali Vikunnar.
Lesa má viðtalið í heild sinni á vef Birtings.
Texti: Ragna Gestsdóttir
Myndir: Hallur Karlsson
Förðun: Sara Eiríksdóttir
Kjóll Dóra: Anita Hirlekar