Auglýsing

„Við gerðum okkur alveg grein fyrir að það þurfti að gera eitthvað“

Fagurkerinn Helga Vala Jensen, kölluð Vala, bauð okkur nýverið í heimsókn á smekklegt heimili sitt í Hafnarfirði þar sem hún býr með eiginmanni sínum og tveimur sonum þeirra og sagði okkur frá þeim endurbótum sem þau hafa ráðist í undanfarin ár. Hún hefur brennandi áhuga á heimili og hönnun og fékk mikla útrás við að standa í framkvæmdum.

Þau festu kaup á íbúðinni um haustið 2018 og réðust strax í endurbætur „Við gerðum okkur alveg grein fyrir að það þurfti að gera eitthvað fyrir íbúðina, en í fyrstu töldum við að það þyrfti bara að endurnýja gólfefni og eldhús. Svo kom í ljós að við þurftum líka að taka baðherbergið í gegn vegna rakaskemmda,“ segir Vala. Hún segir að framkvæmdirnar hafi undið hratt upp á sig þar sem þurfti einnig að endurnýja rafmagn og ofna ásamt öðru. „Við enduðum með nánast fokhelda íbúð.“

Vala segir að þau hafi reynt eftir fremsta megni að gera sem mest sjálf. „Við lögðum t.d. parketið sjálf og settum upp alla skápa og eldhúsinnréttingu – það var gaman að sjá hversu mikið við gátum gert upp á eigin spýtur og það kom okkur svolítið á óvart. Við fengum svo fagfólk til að fara yfir rafmagn og pípulagnir, þá var okkur ráðlagt að skipta um ofna því það var kominn tími á þá og auðvitað ekkert gaman að gera íbúðina upp en eiga þá svo eftir. Síðan þurfti að brjóta upp veggi til að endurnýja rafmagn svo það er óhætt að segja að þetta leyndi allt saman á sér.“

Þetta er brot úr lengra viðtali Gestgjafans sem aðgengilegt er á vef Birtings.

Veggir íbúðarinnar eru málaðir gráir og segir Vala sér þykja myndir, málverk og stofustáss njóta sín vel við gráan grunn. Liturinn er frá Slippfélaginu og heitir Öldugrár.

„Mér finnst fallegt að hafa veggina í hlutlausum lit en ég vildi ekki hafa þá hvíta. Ég valdi þennan gráa lit vegna þess að mér fannst myndirnar okkar njóta sín svo vel á honum. Við vorum með veggina hvítmálaða þar sem við bjuggum áður og ég sá það bara um leið og við fluttum hingað og máluðum hvað allt nýtur sín betur við lit á veggjum. Annars eru allir skápar hvítir á móti sem gefur létt og ljóst yfirbragð.“ 

Umsjón/ Guðný Hrönn
Myndir/ Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing