Stórstjarnan Will Ferrell mun koma fram í sjónvarpsþættinum Eurovisiongleði – Okkar 12 stig sem sýndur verður í beinni útsendingu á RÚV í kvöld kl. 19.40.
Í kvöld gefst Íslendingum tækifæri til þess að kjósa hvaða land hefði fengið stig frá Íslandi, hefði keppnin farið fram.
„Það er mikill heiður fyrir okkur að þessi heimsfrægi leikari gefi sér tíma til að taka þátt í þessu með okkur,“ segir Rúnar Freyr Gíslason verkefnastjóri hjá RÚV. „Honum þykir greinilega mjög vænt um Ísland og Íslendinga og ég hann segir að hann hafi notið þess að vera hérna. Hann sló allavega strax til þegar við höfðum samband við hann í gegnum Netflix.“
En leikarinn dvaldi hér á landi, fyrir alls ekki svo löngu, þegar hér stóðu yfir tökur á Hollywood-myndinni Eurovision þar sem Ferrell leikur Íslendinginn Lars sem keppir í Eurovision fyrir Íslands hönd.
Mikil leynd hvílir yfir því hvaða hlutverki Ferrell muni gegna í þætti kvöldsins en Rúnar Freyr hvetur alla til þess að horfa, koma sér í gírinn með snakk og ídýfu og kjósa sitt uppáhaldslag.
„Jón Jónsson og Ragnhildur Steinunn verða kynnar en svo koma fjölmargir aðrir fram. Það verður auðvitað kosið á milli 15 bestu laganna, Daði Freyr verður með geggjað atriði, Klemens Hatari sýnir á sér nýja hlið, ríkisstjórnin, forsetahjónin og fleiri koma við sögu og svo auðvitað Will Ferrell.“
Þetta kemur fram á vef RÚV