Ekkert lát virðist vera á hnífaárásum þessa dagana en lögregla sendi frá sér tilkynningu þar sem greint er frá því að aðili hafi stungið þrjá í miðborg Reykjavíkur í nótt og voru allir fluttir á bráðamóttöku Landspítalans.
Einn hinna slösuðu er í alvarlegu ástandi og gekkst undir aðgerð á spítalanum en bæði hinn grunaði og þolendur eru ungt fólk og segir lögregla að unnið sé að rannsókn í samstarfi við barnaverndaryfirvöld.
Hinn grunaði hefur verið handtekinn.
Þá var tilkynnt um aðra stunguárás á þriðja tímanum í nótt en þolandi þeirrar árásar er ekki alvarlega slasaður en maðurinn sem grunaður er um stunguna hefur verið handtekinn.