Tveir eru látnir, þar á meðal tveggja ára drengur og þrír eru særðir eftir hrottalega stunguárás í bænum Aschaffenburg í Bæjaralandi á miðvikudag.
Meðal þeirra særðu eru 2 ára stúlkubarn og tveir fullorðnir.
Grunaður árásarmaður er fyrrverandi hælisleitandi frá Afganistan sem átti að yfirgefa Þýskaland en hann var handtekinn stuttu eftir verknaðinn.
Árásin átti sér stað í almenningsgarði
Árásin átti sér stað rétt fyrir hádegi í almenningsgarði í borginni en í henni búa um 72.000 manns.
Joachim Herrmann, öryggisráðherra Bæjaralands, sagði að árásarmaðurinn hafi ráðist með eldhúshníf á hóp leikskólabarna og að drengurinn hafi látist í árásinni.
„Hann stakk tveggja ára drenginn og einnig 41 árs gamlan þýskan mann sem reyndi að vernda börnin,“ sagði Herrmann.
Báðir létust af sárum sínum.
Tveir fullorðnir og tveggja ára stúlka slösuðust í árásinni og voru flutt á sjúkrahús en ekkert þeirra er í lífshættu.
Grunaður árásarmaður handtekinn skömmu seinna
Menn sem urðu vitni að árásinni eltu uppi árásarmanninn, 28 ára gamlan afganskan ríkisborgara, og hann var handtekinn aðeins 12 mínútum eftir árásina.
Herrmann sagði að yfirvöld hefðu áður haf afskipti af manninum vegna ofbeldis og hann hafi í þrígang verið sendur í meðferð vegna árásarhneigðar áður en hann var látinn laus.
Maðurinn kom til Þýskalands í nóvember 2022 og sótti um hæli í byrjun árs 2023.
Í desember lofaði hann að yfirgefa landið sjálfviljugur og sækja ferðaskilríki hjá afganska sendiráðinu en Þýsk yfirvöld höfnuðu formlega hælisumsókn hans og kröfðust brottflutnings en engu að síður var maðurinn enn í landinu.
Pólitískar afleiðingar?
Atvikið kemur á mjög viðkvæmum tíma en stutt er í kosningar í Þýskalandi en þær fara fram eftir minna en mánuð og umræðan um innflytjendur og hælisleitendur er í brennidepli.
Kanslarinn, Olaf Scholz brást harðorður við árásinni.
„Þetta er óskiljanleg hryðjuverkaverknaður. Ég er þreyttur á því að slíkt ofbeldi eigi sér stað reglulega í landi okkar, oft af hendi þeirra sem komu hingað í leit að vernd,“ sagði Scholz í yfirlýsingu.
Hann krafðist tafarlausra aðgerða og fordæmdi það sem hann kallaði „óæskilegt umburðarlyndi“ gagnvart einstaklingum sem ættu ekki að vera í landinu.
„Yfirvöld verða að skýra með hraði hvers vegna árásarmaðurinn var enn í Þýskalandi og það verður að hafa afleiðingar,“ bætti hann við.
Yfirlýsing Scholz hefur vakið athygli og bent er á að hún endurspegli þann þrýsting sem þýsk stjórnvöld standa frammi fyrir í málefnum hælisleitenda og innflytjenda.