Daniel Penny var ákærður fyrir manndráp eftir að hann varði farþega um borð í neðanjarðarlest í New York í fyrra en árásarmaðurinn, Jordan Neely, lést eftir átökin við Penny.
Neely hafði verið með ógnandi tilburði við farþega og átti langa sakaskrá að baki en í þetta sinn stöðvaði Daniel Penny hann með því að setja hann í svokallað rear naked choke eða svæfingatak.
Penny, sem er þrautþjálfaður sérsveitarmaður, stökk á Neely þegar sá síðarnefndi var búinn að ógna farþegum um borð og hóta þeim öllu illu, öskrandi að honum væri alveg sama hvort hann færi í fangelsi aftur.
Penny var í kjölfarið ákærður fyrir manndráp en vegna aðstæðna þurfti kviðdómur að úrskurða hann sekan um að bæði hafa valdið dauða Neely en einnig hvort Penny hefði beitt óþarfa eða ónauðsynlegri hörku við vörn sína.
Penny hélt Neely í takinu í um sex mínútur en dómari felldi málið niður eftir að kviðdómur úrskurðaði að þeir gætu ekki komist að niðurstöðu um seinna atriðið.
Kviðdómur var sammála um að Penny hafi valdið dauða Neely en klofinn um hvort hann hefði beitt óþarfa eða ónauðsynlegri hörku við að verja aðra farþega um borð í lestinni.
Málið hefur vakið mikla athygli og er sagt hafa valdið því að færri einstaklingar hafi afskipti af afbrotum en áður var í borginni af ótta við lagalegar afleiðingar, en engar tölur hafa þó verið birtar til að staðfesta þær kenningar.