„Við viljum fá og eigum rétt á því að fá raunsætt mat á ástandinu á húsunum okkar burtséð frá því hvort við viljum selja eða ekki. Þetta snýr líka að forgangsréttinum – ef við viljum koma tilbaka þá viljum við vita ástandið á eignunum. Er eignin í lagi eða ekki. Ég vill fá rétt mat – borgar sig að gera við það? Með þessari skýrslu veit ég ekki neitt,“ segir Grindvíkingurinn Hilmar Freyr Gunnarsson sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni.
„Þetta er bara fúsk vinnubrögð. NTÍ ber þá ábyrgð samkvæmt lögum að viðgerðarmatið sé þannig að húsið geti farið í það ástand sem það var í fyrir að þá bera þeir ábyrgð“
Hann gagnrýnir harðlega vinnubrögð Náttúruhamfaratryggingu Íslands og verkfræðistofanna sem unnið hafa að ástandskoðunum húsa í Grindavík að undanförnu. Hann segir matsmenn og skýrslur þeirra vanmeta gríðarlega þau tjón sem um er að ræða og mæli með lausnum sem séu í besta falli hræðilegt fúsk eða yfirklór sem hæfi á engan hátt því ástandi sem húsin eru mörg hver í. Hann vill að sérstök rannsóknarnefnd verði fengin til að fara yfir ferlið og þau vinnubrögð sem hafa verið stunduð í þessu mikilvæga máli.
Engar tilvísanir í eitt eða neitt
„Þeir koma og skoða. Í rauninni hefði fyrsta skoðunin átt að vera svona forskoðun – eins og undanfaraskoðun hjá verkfræðistofunum. Fara og skoða allar eignir í Grindavík. Meta það svo eftirá hvað það séu margar eignir sem þarf að skoða aftur. Svo myndum við gefa út svona plagg – þetta er ca. ástandið og við þurfum að fara í dýpri skoðanir á burðarvirkinu og húsnæðinu almennt og þá yrði sú skoðun framkvæmd,“ segir Hilmar Freyr sem fer yfir skýrsluna sem hann fékk um húsið sitt.
„Niðurstöðurnar eru þær að það er missigið gólfið þar sem mælt er að flota yfir en ekki mælt með frekari skoðun. Ég er með skakkan útvegg sem ekki er tekið fram í skýrslunni, ég er með brotna tvo burðarveggi sem er mælt með í skýrslunni að epoxy-líma eftir 45 mínútna sjónskoðun. Það liggur ekkert að baki þessu, engar tilvísanir í skýrslunni um eitt eða neitt. Eins og til dæmis með gólfhallann – það er bara fullyrt og þessu er slengt fram og við eigum bara að lesa úr þessu. Ég segi að ef fólk sem hefur enga reynslu af byggingu, ástandsskoðun eða neinu og fær svona í hendurnar og þær eru ekki rétt upp settar eða upplýsingaflæðið nógu gott þá vita þau ekkert hvað þau eru að segja já eða nei við.“
Vill rannsóknarnefnd á vegum Alþingis
Þá segir Hilmar Freyr að það sé ljóst að þeir vanmeta tjónið gríðarlega og að vinnubrögðin sem stunduð eru í þessu séu ekkert anað en fúsk.
„Tjónamatið á mínu húsi er 4,4 milljónir. Til dæmis flotunin sem þeir mæla með – þeir setja það á 182 þúsund. Ég fékk sjálfur kostnaðarmat í það og það er 690 þúsund, bara sá liður.“
„Með því að gefa út svona ranga skýrslu – hvernig túlkaru það?“
„Þetta er bara fúsk vinnubrögð. NTÍ ber þá ábyrgð samkvæmt lögum að viðgerðarmatið sé þannig að húsið geti farið í það ástand sem það var í fyrir að þá bera þeir ábyrgð. Ef þú ræður til þín verktaka til þess að finna hvað þarf að gera til að koma því í upprunalegt ástand þá ber NTÍ ábyrgðina. Svo bera verkfræðistofurnar hinsvegar ábyrgð á því að sínir starfsmenn séu að segja satt og rétt frá. Í skýrslunum eru starfsmenn verkfræðistofunnar nafngreindir og verkfræðistofurnar líka. Nú er staðan þannig að NTÍ kastar ábyrgðinni á verkfræðistofurnar og verkfræðistofurnar segja okkur bara að tala við NTÍ,“ segir Hilmar Freyr sem vill að Alþingi seti á fót rannsóknarnefnd vegna málsins.
Þú getur hlustað og horft á stutt myndskeið úr viðtalinu hér fyrir neðan en ef þú vilt það í fullri lengd þá þarftu að skunda inn á vefsíðu hlaðvarpsveitunnar Brotkast.