„Ég hef verið að gagnrýna Guðna fyrir það að hafa ekkert sagt um þetta þjóðarmorð sem er að eiga sér stað á Gasa,“ segir Ástþór Magnússon sem í samtali við Nútímann lýsir því yfir að hann ætli að bjóða sig fram til forseta Íslands í komandi kosningum í sumar. Hann vill að Ísland verði friðartákn í heiminum og ætlar að vinna að því að landið fái nýtt hlutverk sem alþjóðlegur talsmaður friðar og mannréttinda.
„Seint í gærkvöldi þá opnaði ég síðuna forsetakosningar.is og þar er hægt að sjá til dæmis stefnumálin mín en þau snúa að friði en ég vil virkja Bessastaði til friðar- og lýðræðisþróunar,“ segir Ástþór sem vill meðal annars að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fái nýjar höfuðstöðvar á Reykjanesinu. Ástþór muni vinna að því verði hann kjörinn forseti.
Þá finnst Ástþóri að Guðni Th. hafi ekki staðið sig sem forseti þegar það kemur að því að vinna að friði í heiminum.
Guðni handbendi hernaðarhyggju
„Ég hef verið að skrifa honum Guðna á síðastliðnum mánuðum og síðustu tveimur árum að hann geti ekkert setið svona bara og þagað á Bessastöðum. Maðurinn er að fara í opinberar heimsóknir á milli húsa í Reykjavík. Þetta er bara djók. Þetta er bara fáránlegt,“ segir Ástþór sem fékk aldrei nein svör.
„Svo er þetta fólk að þvæla eitthvað innanlands að það vilji vopnahlé en það fylgir ekkert hugur máli. Þau gera ekkert í því erlendis. Það er náttúrulega ekkert nóg að tala í kofanum heima hjá sér.“
„Nei, hann hefur ekki svarað einu eða neinu. Þegar við vorum í framboðinu þarna 2016 að þá sagði ég við hann að hann væri óheiðarlegur og það átti að henda mér út úr útvarpsþætti á RÚV fyrir það. Ég sagði að hann væri handbendi þessarar hernaðarhyggju og myndi ekki gera neitt ef það væri styrjaldarástand og ég var sannspár um það. Það er samt gott að hann er að fara því þá getur einhver betri komið í staðinn.“
Stjórnvöld með undirlægjuhátt við Bandaríkin
„Hugmyndir mínar ganga út á það að Ísland verði miðstöð friðarmála í heiminum. Öryggisráðið og það sem því fylgir verði á Íslandi. Það gengur ekkert að það sé í New York. Ég sá fyrir mér, það hefur reyndar verið eitthvað af eldgosum þarna núna, en ég sá fyrir mér svæðið á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur sem „borg“ Sameinuðu þjóðanna í framtíðinni. Það eru fá lönd betri en Ísland til þess að hýsa hana,“ segir Ástþór og bætir við að stjórnmálamenn á Íslandi séu afskaplega skammsýnir þegar það kemur að friðarmálum.
„Að hindra frambjóðanda í lýðræðislegum kosningum að koma málefnum á framfæri við þjóðina sína er eitt alvarlegasta brot sem samfélagsmiðlar geta framið gagnvart þessum nýju reglugerðum Evrópusambandsins“
„Íslendingar hafa raunhæfan möguleika á að gera þetta en auðvitað eru stjórnvöld, þetta fólk sem er valið í embætti með sína skammsýni og sinn undirlægjuhátt við Bandaríkin og þeirra heimsvaldastefnu þeirra og hernaðarhyggju, að eyðileggja ímynd Íslands út á við. Við sjáum það hjá Sameinuðu þjóðunum þegar atkvæðagreiðslan var um vopnahlé. Svo er þetta fólk að þvæla eitthvað innanlands að það vilji vopnahlé en það fylgir ekkert hugur máli. Þau gera ekkert í því erlendis. Það er náttúrulega ekkert nóg að tala í kofanum heima hjá sér. Það þarf að tala um þetta á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Ástþór sem er staddur á Spáni en kemur til landsins á næstu mánuðum til þess að standa í kosningabaráttunni um forsetaembættið.
Ætlar í mál við Facebook
En það er ekki bara kosningabaráttan á Íslandi sem á hug Ástþórs þessa dagana því hann er ekki sáttur með Facebook og hyggst höfða mál gegn þeim.
„Ég hef ekki komist inn á Facebook-aðganga mína í töluverðan tíma núna og ég býst við því að stefna þeim í Dublin. Það eru komnar reglur hjá Evrópusambandinu sem eru á þann veg að ef Facebook truflar svona lýðræðisþróun, eins og kosningar eru í lýðræðisríkjum, að þá geta þeir átt von á margra milljóna dollara sekt. Að hindra frambjóðanda í lýðræðislegum kosningum að koma málefnum á framfæri við þjóðina sína er eitt alvarlegasta brot sem samfélagsmiðlar geta framið gagnvart þessum nýju reglugerðum Evrópusambandsins og það eru þeir sannarlega að gera. Ég hef hvorki getað auglýst þar eða komið á framfæri mínum stefnumálum,“ segir Ástþór sem leggur til „forsetasamning við þjóðina.“
„Ég legg fyrir þjóðina Forsetasamning minn sem tekur gildi verði ég kjörin forseti Íslands,“ segir Ástþór en samningurinn er eftirfarandi:
1.gr. Forsetasamningurinn. Aðilar að þessum samningi eru: Ástþór Magnússon Wium kt. 040853-2519 (forsetinn) og kjósendur Ástþórs Magnússonar.
2.gr. Sameiningartákn þjóðarinnar. Forsetinn skal áfram starfa sem hlutlaust sameiningartákn þjóðarinnar en með þeim áherslubreytingum sem kynntar eru í 3-5 gr.
3.gr. Ríkisráðið. Ný lög skulu lögð fyrir forsetann á fundum Ríkisráðs. Í þeim tilfellum sem forsetinn er staddur erlendis þegar halda þarf Ríkisráðsfundi, mun forsetinn leitast við að nota nútíma fjarfundartækni til þáttöku í viðkomandi fundi og þannig tryggja að forsetinn sé sá öryggisventill fyrir þjóðina sem ætlast er til í stjórnarskrá lýðveldisins hvað varðar gildistöku nýrra laga frá Alþingi eða Ríkisstjórn.
4.gr. Virkara lýðræði og málskotsréttur. Forsetinn skal stuðla að virku lýðræði á Íslandi og þjóðinni verði gefinn kostur á aukinni þáttöku með þróun á beinu lýðræði með nútíma tækni. Forsetinn skal nota málskotsréttinn til að leggja umdeild mál fyrir þjóðina til úrskurðar telji hann að viðkomandi lagasetning sé á skjön við meirihlutavilja þjóðarinnar.
5.gr. Ísland fyrirmynd friðar. Forsetinn mun hafa frumkvæði að því að kynna einstaka sögu Íslensku þjóðarinnar sem fyrirmynd friðar á alþjóðlegum vettvangi og stofna til víðtæks alþjóðlegs samstarfs um að á Íslandi rísi stjórnstöð alþjóðlegs friðargæsluliðs er geri einstökum þjóðum mögulegt að leggja niður heri sína og gera varnarsamninga við hið alþjóðlega friðargæslulið.