Dazhon Darien, kennari við Pikesville grunnskólann í Baltimore í Bandaríkjunum hefur verið handtekinn vegna gruns um að hafa notfært sér gervigreind við gerð upptöku þar sem hann líkir eftir rödd skólastjóra grunnskólans.
Á upptökunni heyrist rödd skólastjórans segja margt sem telst bæði kynþáttafordómar og gyðingahatur. Í viðtali við NBC fréttastöðina segir lögreglustjóri Baltimore, Robert McCullough að lögreglan hafi sannanir fyrir því að upptakan sé fölsuð og að gervigreind hafi komið við sögu við gerð hennar.
Gefin var út handtökuheimild á Darien en hann náðist á flugvellinum í Baltimore þar sem hann reyndi að flýja, en hann var með skotvopn í fórum sínum.
Enn fremur segir lögreglustjórinn að lögregluna gruni að Darien, sem er svartur á hörund, hafi falsað upptökuna til að koma skólastjóranum, sem er hvítur á hörund, frá störfum eftir að sá síðarnefndi fékk grun um að Darien væri að misnota fjármuni skólans og hafði krafist þess að opinber rannsókn færi fram.
Skólastjórinn sagðist hafa fengið mikið áfall þegar þessum upptökum var dreift til foreldra og umsjónarmanna við skólann, en á upptökunni segir lögreglan að sé að finna ógeðslegar athugasemdir eins og að svartir nemendur gætu ekki staðist einföldustu próf og að reka ætti alla gyðinga við skólann.
Málið hafði mikil áhrif á samfélagið og hafði skólastjórinn ávallt haldið fram sakleysi sínu, en hann hafði verið settur í leyfi þar til upp komst um fölsunina.
Sérfræðingur lögreglunnar kom upp um hvernig fölsunin var búin til og hvaðan hún kom upprunalega.
Að sögn yfirmanns menntamála í Baltimore mun Darien verða sagt upp störfum verði hann fundinn sekur.
Málið mykir minna um margt á mál leikarans Jussie Smollett sem dæmdur var í fangelsi fyrir að ljúga til um kynþáttafordóma sem hann hafði sjálfur sett á svið.