„Það er með hreinum ólíkindum hvernig hatramir andstæðingar Bjarna Benediktssonar hafa talað um hann, sérstaklega nú þegar hann víkur af þingi og hættir sem formaður Sjálfstæðisflokksins.“
Þetta segir Arnþór Jónsson, sem starfaði lengi fyrir SÁÁ og gegndi formennsku í samtökunum í sjö ár.
Hann hefur stigið fram með stuðningsyfirlýsingu við Bjarna og bent á að þrátt fyrir mikinn gauragang og gagnrýni frá pólitíkusum, hafi Bjarni Benediktsson gert ómetanlegta hluti fyrir SÁÁ.
Segir hann að á sínum tíma, þegar Bjarni var nýorðinn fjármálaráðherra árið 2014, hafi hann í raun bjargað fjárhag SÁÁ.
Leysti úr annars ómögulegum skuldum
Hann segir Bjarn hafa leyst áralangar deilur um uppsafnaðar lífeyrissjóðsskuldbindingar sem voru hluti af svokölluðum b-hluta LSR.
Skuldirnar voru sligandi, samtals allt að 800 milljónir króna og endurskoðendur töldu að samtökin væru ekki rekstrarhæf.
„En Bjarni hjó á þennan hnút fljótlega eftir að hann tók við fjármálaráðuneytinu, nokkuð sem enginn fyrirrennara hans hafði haft vilja eða getu til að gera, og leysti SÁÁ úr þessum bókhaldsfjötrum.“
Arnþór segir Bjarna hafa þannig tryggt að SÁÁ varð rekstrarhæft og losnaði úr þeim fjárhagslegu höftum sem höfðu verið á samtökunum.
Eftir þessa frelsun var hafist handa við að byggja glæsilega meðferðarstöð SÁÁ á Kjalarnesi, sem opnaði á 40 ára afmæli samtakanna árið 2017.
Með þessari nýju aðstöðu og bættri þjónustu varð SÁÁ meðal fremstu stofnana í heilbrigðisþjónustu landsins.
Færslu Arnþórs í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.