Auglýsing

Bónuskort notuð til að greiða fyrir fíkniefni: „Þetta er mjög vinsælt“

Hin gulu Bónuskort hafa reynst vel þegar það kemur að nafnlausum matargjöfum á samfélagsmiðlum á borð við Facebook. En nú virðist þessi nafnlausa fjáröflunarleið, oftar en ekki fyrir þá sem minna mega sín, notuð í æ meiri mæli í vafasömum tilgangi. Nútíminn hefur fengið það staðfest að Bónuskortin vinsælu eru nú vinsæll greiðslumiðill í undirheimum landsins.

DV fjallaði um einn anga málsins á laugardaginn en þar kom fram að „nafnlaus neyðarköll á Facebook“ væru ekki öll sem þau eru séð. Í umfjölluninni kemur fram að einstæður þriggja barna faðir óski eftir aðstoð með greiðslu inn á Bónuskort á einum stað en á öðrum er þessi einstæði þriggja barna faðir orðin að pari með tvö börn.

Nútíminn ræddi við þrjá einstaklinga sem þekkja undirheimana mjög vel. Einn þeirra er í neyslu og fjármagnar hana meðal annars með sölu á þýfi. Annar er edrú í dag og hefur búið sér til fallegt líf ásamt konu og börnum en sá þriðji er fíkniefnasali. Allir eru þeir sammála um að Bónuskortin eru misnotuð af einstaklingum sem nota þau til þess að verða sér úti um fíkniefni. Þá sérstaklega þegar um er að ræða nafnlausa einstaklinga, pör eða heilu fjölskyldurnar sem óska eftir aðstoð  í hinum ýmsu hópum á Facebook.

Notar kortin í mismunandi verslunum

„Ég er að taka við þessum kortum á hálfvirði. Ef þú ert með Bónus-kort með tuttugu þúsund króna inneign að þá færðu hjá mér efni fyrir tíu þúsund krónur. Þetta er mjög vinsælt en getur verið óþolandi,“ segir fíkniefnasalinn.

En af hverju fær viðkomandi ekki efni fyrir tuttugu þúsund?



„Því ég nenni yfirleitt ekki að standa í þessum kortum. Það er alveg meira en að segja það að vera með fimmtán, tuttugu svona kort og þurfa svo að standa í því að nota þau í mismunandi Bónus-verslunum. Maður verður að gera það til þess að fela slóðina. Það er ekkert hægt að mæta með tíu Bónuskort og kaupa í matinn fyrir hundrað þúsund. Það gengur ekkert.“

Nútíminn ræddi einnig við einstakling sem er í virkri neyslu. Hann segir sömu sögu og fíkniefnasalinn. Bónus-kortin eru misnotuð og það hefur í raun bara aukist að undanförnu að hans mati.

Finnst ömurlegt að ljúga að góða fólkinu

„Mér finnst þetta ömurlegt. Ég verð að viðurkenna það. Að fara inn á Facebook og þykjast vera einstæður faðir með allt í skrúfunni og allt þetta góða fólk leggur inn á mann, grunlaust að allt fer í fíkniefni. Þetta er ekki góð tilfinning en ég geri það sem ég verð að gera til þess að verða mér úti um fíkniefni. Ef það þýðir að ég þurfi að þykjast vera einhver annar en ég er, skrifa nafnlausan póst á Facebook og biðja um mataraðstoð að þá bara geri ég það.“

Nútíminn mun í dag birta leiðarvísi fyrir þá sem vilja styrkja aðra með matargjöfum á samfélagsmiðlum – sá leiðarvísir ættu allir góðhjartaðir Íslendingar að hafa á bakvið eyrað áður en millifært er á nafnlausa einstaklinga á Facebook.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing