Auglýsing

Brasilía bannar samskiptamiðilinn X í öllu landinu eftir að Musk neitar að taka þátt í ritskoðun ríkisstjórnarinnar

Hæstiréttur Brasilíu bannaði í dag notkun samskiptamiðilsins X í öllu landinu eftir langar deilur milli milljarðamæringsins Elon Musk og dómarans Alexandre de Moraes, sem leiðir baráttu landsins gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu.

Musk hafði hætt allri starfsemi og lokað höfuðstöðvum X í landinu fyrr í mánuðinum eftir að yfirvöld þar í landi hótuðu fulltrúa X í landinu handtöku ef að miðillin fylgdi ekki fyrirskipunum þeirra með ritskoðun.

Musk kallaði Moraes „illan harðstjóra sem þættist vera dómari“ í mörgum tístum og sakaði hann um að vera að reyna að þagga niður í pólitískum andstæðingum ríkisstjórnarinnar og að X tæki ekki þátt í slíkum aðgerðum.

Moraes hafði fyrirskipað Musk að skipa nýjan fulltrúa miðilsins í landinu innan 24 klukkustunda en þegar sá frestur rann út fór hann fram á algjört bann á notkun miðilsins í landinu sem hæstiréttur staðfesti.

Moraes hefur einnig krafist þess af Google, Apple og öðrum erlendum netfyrirtækjum að þau hanni búnað sem kemur í veg fyrir að hægt sé að nota miðilinn X í gegnum þeirra miðla, en slíkt er hægt með fjölmörgum leiðum.

Meira en 22 milljónir manna nota miðilinn X í Brasilíu og óvist er hvernig mun ganga að banna fólki að nota hann en hæstiréttur Brasilíu hefur gefið Moraes leyfi til að „beita öllum nauðsynlegum ráðum“ til að koma í veg fyrir notkun miðilsins þar í landi.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing