Körfuboltaþjálfarinn Brynjar Karl Sigurðsson fer ófögrum orðum um Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ).
Brynjar mætti nýlega í Spjallið með Frosta Logasyni og sakaði þar Lárus Blöndal, forseta ÍSÍ um gróft einelti og krefst þess að hann segi af sér embætti.
Brynjar segir frá því hvernig hann hafi verið boðaður á fund samskiptafulltrúa, en ekki hjá körfuknattleikssambandinu, heldur ÍSÍ sem Brynjar telur óeðlilegt.
Brynjar segir þetta merki um að nú ætli ÍSÍ að blanda sér inn í hans mál og segir það alveg galið.
Krefst þess að forseti ÍSÍ segi af sér
„Ég ætla eiginlega bara að fara fram á það að Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ segi hreinlega af sér,“ segir Brynjar.
Máli sínu til stuðnings segir Brynjar að honum finnist sambandið búið að standa fyrir grófu einelti.
„Þetta snýst ekkert um mig, ég á tvo mánuði eftir af minni baráttu og þá er ég að fara að skipuleggja mín plön upp á nýtt,“ segir hann.
Hann heldur svo áfram og segir Lárus ítrekað láta pólitík stjórna aðgerðum sambandsins og kynni sér engin mál á sama tíma og hann (Lárus) og stjórn ÍSÍ hafi ítrekað litið gegnum fingur sér þegar kom að alvarlegum ásökunum tengdum MeToo hreyfingunni.
„Þetta voru hlutir sem voru tæklaðir en það var reynt að ýta þessu undir teppið,“ segir Brynjar Karl.
Brynjar segir að á sama tíma hafi Lárus mætt á þing þar sem Brynjar var einnig staddur, stigið þar upp í pontu og tekið Brynjar fyrir í ræðu sinni.
Hann segir að þar hafi Lárus talað um að það þyrfti að stoppa Brynjar og körfuboltaliðið Aþenu sem hann stýrir.
„Þetta eru svo slöpp vinnubrögð,“ segir hann og heldur því fram að Lárus Blöndal hafi ekki einu sinni kynnt sér málin nægilega vel áður en hann tjáði sig opinberlega um þau.
Bað um fund til að hreinsa loftið
Árið 2022 segist Brynjar hafa beðið um fund með Lárusi til að hreinsa loftið og að þar hafi Lárus viðurkennt að hafa allar sínar upplýsingar eftir Víði Halldórssyni og Hafrúnu Kristjánsdóttur, sem Brynjar segir bera mikið hatur í sinn garð.
Brynjar segir haft eftir Víði, sem er félagsfræðiprófessor, að ef hann þyrfti að kynna sér öll mál til að geta tjáð sig um þau, þá myndi hann aldrei geta tjáð sig á samfélagsmiðlum.
Brynjar gefur í skyn að það sé einfaldlega ekki boðlegt að samband eins og ÍSÍ láti kjaftasögur og persónulegar skoðanir einstaklinga úti í bæ stjórna því hvernig meðferð fólk fær innan sambandsins.
Hann víkur svo talinu að íþróttahreyfingunni og segir íþróttahreyfinguna á Íslandi vera með þeim einhæfustu sem fyrirfinnst og að þar megi enginn vera „öðruvísi.“
Brot út þættinum er hægt að sjá fyrir neðan en ef þú vilt sjá allan þáttinn er hægt að fara inn á Brotkast.is og kaupa fyrsta mánuðinn á aðeins 99. krónur!