Auglýsing

Brynjar Karl lætur ÍSÍ fá það óþvegið eftir stuðningsyfirlýsingu frá leikmönnum sínum

Hegðun Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) í garð íþróttafélagsins Aþenu hefur vakið hörð viðbrögð þjálfarans, Brynjars Karls.

Í nýrri yfirlýsingu á Facebook gagnrýnir Brynjar Karl aðgerðir ÍSÍ harðlega og sakar sambandið um valdníðslu og kerfisbundna þöggun.

„Ég er hissa að þetta útspil ÍSÍ hafi ekki komið fyrr. Enn og aftur, um leið og kúltúrinn sem stelpur og konur í boltaíþróttum búa við er gagnrýndur, birtist yfirlýsing frá ÍSÍ,“ segir í yfirlýsingu þjálfarans.

Hann sakar sambandið um að standa vörð um valdhafa í íþróttahreyfingunni í stað þess að hlusta á iðkendur og standa með þeim.

Gagnrýni á viðbrögð ÍSÍ við METOO-ásökunum

Í yfirlýsingunni er bent á að ÍSÍ hafi lítið gert til að bregðast við METOO-málum innan íþróttahreyfingarinnar en hafi í staðinn reynt að hindra starfsemi Aþenu með því að tefja stofnun félagsins.

Þá er einnig fullyrt að sambandið hafi varað erlenda gesti við að heimsækja félagið og að Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, hafi kallað eftir Brynjar Karl yrði „stoppaður“ á ársþingi án þess að kynna sér störf hans eða ræða við iðkendur.
Yfirlýsingu Brynjars má sjá í heild sinni fyrir neðan.

Leikmenn Aþenu koma þjálfaranum til varnar

Leikmenn meistaraflokks kvenna hjá Aþenu hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær hafna ásökunum um að þær séu beittar ofbeldi innan félagsins.

Í yfirlýsingunni, sem birt var að þeirra ósk, lýsa leikmenn yfir óánægju með hvernig umræðan hefur þróast og segja hana fela í sér „vanvirðingu við okkur sem fullorðna einstaklinga.“

„Við erum ekki beittar ofbeldi“

Í yfirlýsingu Aþenu segjast leikmenn fullfærar um að mynda sínar eigin skoðanir og meta aðstæður sínar.

Þær harma að orð eins og „ofbeldissamband“ hafi verið notuð til að lýsa starfsemi félagsins án þess að nokkur sem heldur þessum ásökunum á lofti hafi haft samband við þær sjálfar.

„Við viljum taka það skýrt fram að við erum ekki beittar ofbeldi. Okkur þykir slíkar yfirlýsingar vanvirðing við okkur sem fullorðna einstaklinga sem af fúsum og frjálsum vilja göngum í Aþenu og spilum fyrir okkar lið,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá benda leikmenn á að orðræðan sé villandi og skaðleg þar sem hún gerir lítið úr raunverulegu ofbeldi sem fólk verður fyrir.

Enginn hafði samband við leikmenn áður en ásakanir voru settar fram

Leikmennirnir gagnrýna sérstaklega að þeir sem hafa tjáð sig opinberlega um málið hafi ekki haft beint samband við þær áður en ásakanirnar komu fram.

„Það er óásættanlegt að einstaklingar sem hafa tjáð sig um málið opinberlega, t.d. Bjarney Lára Bjarnadóttir sem upphóf ofbeldisásakanirnar, hafi ekki haft beint samband við okkur heldur myndi skoðanir á okkur og geri okkur upp tilfinningar út frá myndbrotum úr viðtölum eða fyrirsögnum í fjölmiðlum,“ segja leikmenn.

Áhrif á yngri iðkendur

Leikmenn vara einnig við því að umræða af þessu tagi hafi bein áhrif á iðkendur yngri flokka félagsins þar sem leikmenn meistaraflokks þjálfi yngri iðkendur.

Þær benda á að iðkendahópurinn hafi stækkað verulega og þá sérstaklega meðal stelpna sem áður höfðu ekki fengið tækifæri til að stunda íþróttir.

„Við skorum á öll sem hafa áhuga að hafa samband við okkur leikmennina svo við getum rætt málin. Þið eruð velkomin á æfingu hvenær sem er,“ segir í yfirlýsingunni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing