Brynjar Karl Sigurðsson, körfuboltaþjálfari, mætti í þáttinn Spjallið með Frosta Logasyni.
Hann hefur vakið mikla athygli, og verið harðlega gagnrýndur fyrir, nálgun sína á þjálfun ungra stúlkna.
Brynjar leggur áherslu á að stelpur fái sömu tækifæri og strákar til að þróa hæfileika sína í íþróttinni og hafnar þeirri hugmynd að þær eigi að sætta sig við minni kröfur eða vægari gagnrýni.
Í viðtalinu fer hann ítarlega í þá hugmyndafræði sem liggur að baki þjálfunarstíl hans og gagnrýnir umhverfi íþróttahreyfingarinnar sem að hans mati hefur brugðist stelpum.
Ekki alltaf sanngjarnt
Hann lýsir því hvernig hann hefur séð ungar íþróttakonur brotna niður eftir að hafa tekið þátt í kerfi sem hann kallar „shit show“, þar sem væntingar til þeirra séu aðrar en til drengja.
„Lífið er ekki sanngjarnt, og ég hef sjálfur fundið fyrir því hvernig komið er fram við mig. En það þýðir ekki að gefast upp. Allt sem kallast gæði í samfélaginu er tilkomið vegna þess að einhver barðist fyrir því,“ segir Brynjar í viðtalinu.
Hann telur að ábyrgðin liggi bæði hjá þjálfurum og leikmönnum sjálfum og að þau þurfi að vera sterk og tilbúin til að standa gegn ósanngirni.
Vantar jafnrétti í körfuboltann
Brynjar hefur verið ötull talsmaður þess að stelpum sé ekki hlíft við krefjandi þjálfun og raunverulegri gagnrýni.
Hann gagnrýnir harðlega hvernig fjölmiðlar, þjálfarar og íþróttayfirvöld hafa hlíft stelpum við því að vera kallaðar til ábyrgðar á sama hátt og strákar.
Að hans mati kemur slíkt niður á þeirra þróun og tækifærum.
„Ég hef séð stelpur sem fóru í gegnum þetta kerfi fá raunveruleg tækifæri í dag en það sem þær eru í raun að gera er að moka skítinn sem þær hefðu aldrei átt að þurfa að moka,“ segir hann.
Þrátt fyrir gagnrýnina sem hann hefur fengið er Brynjar staðfastur í sinni stefnu og segir að hann líti á baráttuna sem hluta af stærra samfélagslegu máli sem nær langt út fyrir körfuboltann.
Viðtalið við Brynjar Karl má nálgast í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.