Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri og nú frambjóðandi fyrir Samfylkinguna á landsvísu, hefur verið kærður til héraðssaksóknara vegna meintra brota á kosningalögum.
Héraðssaksóknari hefur móttekið kæruna sem kemur frá Lúðvíki Lúðvíkssyni, netagerðarmanni, vegna ummæla Dags B. Eggertssonar en kærandi telur þau hafa verið til þess fallin að villa um fyrir kjósendum og gera kjörseðla þeirra ógilda.
Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi birti ljósmynd af kærunni á facebook síðu sinni fyrr í dag eins og sjá má hér að neðan:
Samkvæmt skjalinu er kæran á hendur Degi vegna ummæla hans á facebook síðu Baldvins Jónssonar þann 25. nóvember síðastliðinn, en þar hvatti Dagur kjósendur Sjálfstæðisflokksins til að strika sig út á kjörseðlum þeirra.
„Já, hvet alla kjósendur Sjálfstæðisflokksins til að strika yfir mig“
Lúðvík Lúðvíksson, sem skrifaður er fyrir kærunni, ræddi við Nútímann rétt í þessu og þegar hann var spurður um ástæðu kærunnar sagði hann:
„Í ljósi þess að hann er enginn nýgræðingur á þessu sviði. Þetta er atvinnupólitíkus númer eitt á Íslandi. Fyrrverandi borgarstjóri. Hann á að þekkja þessar leikreglur alveg út og inn og það þýðir ekkert að segja við fullorðið fólk: „Allt í plati“ þegar þú ert búinn að setja eitthvað niður á blað, eins og hann gerði í þessari Facebook færslu,“ en þar vitnar Lúðvík í fyrrnefnda Facebook færslu Baldvins Jónssonar, þar sem Dagur lét þessi orð falla.
„Ég er bara hissa á að hann hafi ekki fengið á sig kæru fyrr. Ég hef verið að fylgjast með því hvort hann yrði kærður eða ekki,“ segir Lúðvík og segir það augljóst að Dagur sé að reyna að villa um fyrir kjósendum. Ekki bara kjósendum Sjálfstæðisflokksins heldur bara kjósendum yfir höfuð.
„Það má kannski hugleiða það líka að við skorum nú ansi illa á spillingalistanum, Transparancy International, við erum á mjög slæmum stað þar. Dálítið skrýtið að ÖSE sé ekki að fylgjast með kosningum á Íslandi,“ segir Lúðvík og bætir við að það segi svolítið mikið um stemninguna sem er hér á landi.