Deilur innan Sósíalistaflokks Íslands harðna eftir að Karl Héðinn Kristjánsson sagði sig úr kosningastjórn flokksins í mótmælaskyni.
Í yfirlýsingu sinni sakaði hann forystu flokksins um að hunsa lýðræðislega gagnrýni, viðhalda óheilbrigðri menningu og refsa þeim sem benda á vandamál innan flokksins.
Forystufólk flokksins brást hratt við ásökunum Karls Héðins.
Í opinberri yfirlýsingu stjórn Sósíalistaflokksins á Rauða Þræðinum, spjallsíðu flokksins, var gagnrýni hans hafnað.
Þær benda á nýlega félagakönnun þar sem 15% flokksmanna tóku þátt, og að þar hafi yfir 90% lýst ánægju með starf flokksins, þó óánægja hafi verið með niðurstöður kosninganna.
„Mjög fyndið samt að gera það einmitt með þeim máta sem verið er að gagnrýna“
Þær telja að sú niðurstaða sýni að ekki sé vantraust innan flokksins á formann framkvæmdastjórnar, Gunnar Smára Egilsson, sem Karl Héðinn gagnrýnir harðlega í yfirlýsingu sinni.
Blendin viðbrögð við yfirlýsingunni
Viðbrögð flokksmanna hafa þó verið blendin og margir lýsa yfir stuðningi við Karl Héðinn og benda á að yfirlýsing stjórnar staðfesti í raun ásakanir hans.
Arnlaugur Samúel Arnþórsson gagnrýnir það að stjórn flokksins hafi tekið afstöðu án þess að kynna sér málið ítarlega, sem hann segir einmitt vera hluta af því sem Karl Héðinn var að gagnrýna.
„Mjög fyndið samt að gera það einmitt með þeim máta sem verið er að gagnrýna,“ segir hann.
Aðrir gagnrýnendur, eins og Trausti Breiðfjörð Magnússon og Guðbergur Egill Eyjólfsson, benda á að vinnufundur kosningastjórnar, þar sem mikill samhljómur var um nauðsynlegar breytingar, hafi verið hunsaður.
„Það er skandall að ekki sé tekið mark á félögum,“ segir Trausti.
Hann og fleiri vilja einnig fá að sjá niðurstöður könnunarinnar sem forystan vísar til og segja að hún hafi verið villandi, þar sem flokksstarfið var lofað í upphafi hennar áður en spurningar voru lagðar fram.
Ekki sátt um fjármál flokksins
Einnig hefur komið fram gagnrýni á fjármál flokksins, sérstaklega tengsl Sósíalistaflokksins við Alþýðufélagið og Samstöðina, sem Karl Héðinn segir vera í raun einkafélag Gunnars Smára.
Engin viðbrögð hafa borist frá forystu flokksins við þessum ásökunum.
Fjölmargir flokksmenn hafa tekið undir gagnrýni Karls Héðins og segja ólýðræðisleg vinnubrögð vera vaxandi vandamál innan flokksins.
Kjartan Sveinn Guðmundsson spyr hvort flokkurinn muni tjá sig um þá ásökun Karls Héðins að honum hafi verið neitað um umsamin laun fyrir vinnu við Samstöðina.
Fundur boðaður – en aðgangur takmarkaður
Í kjölfar ásakananna boðaði Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar flokksins, til skyndifundar í félagsheimili Vorstjörnunnar í Bolholti 6.
Þar hyggst hann fara yfir gagnrýni Karls Héðins og ræða málefni flokksins. Fundurinn er sagður „opinn öllum,“ en félagar hafa gagnrýnt að hann sé ekki í boði í gegnum Zoom, sem útilokar fjölda flokksmanna, sérstaklega þá sem búa á landsbyggðinni.
„pólitískt harakiri“ og „himnasending fyrir pólitíska andstæðinga“ flokksins“
„Hvernig eiga félagar út á landi eða þeir sem komast ekki í Bolholt eiginlega að sækja þennan fund ef það er ekki í boði að komast á hann í gegnum Zoom?“ spyr Ægir Máni Bjarnason og bætir við: „Persónulega finnst mér það mjög ólýðræðislegt og glatað, að fullt af félögum er meinað aðgang að fundinum því þeir geta ekki verið á staðnum.“
Hvar er færslan hans Karls Héðins?
Einnig vakna spurningar um hvort verið sé að þagga niður í gagnrýnisröddum.
Magga Stína benti á að tilkynning Karls Héðins virtist hafa verið tekin út af Facebook spjalli flokksins.
Karl Héðinn svaraði og sagði: „Ég tók færsluna ekki út… Hún er á síðunni minni líka fyrir ykkur sem viljið lesa.“
Úrsagnir úr flokknum?
Eftir ásakanirnar og viðbrögðin hefur hópur flokksmanna leitað upplýsinga um hvernig hægt sé að segja sig úr flokknum.
Guðrún Vilhjálmsdóttir segir að nokkrir hafi haft samband við sig um úrsagnir en hún finnur ekki slíkan möguleika á heimasíðu flokksins.
Aðför að flokknum eða réttmæt gagnrýni?
Eyþór Gunnarsson segir þetta vera „pólitískt harakiri“ og „himnasendingu fyrir pólitíska andstæðinga“ flokksins.
Því svara margir harðlega, þar á meðal Kristján Héðinn Gíslason sem segir: „Að tala svona léttvægt um raunverulega þjáningu og upplifanir manneskja af einelti og níði er þér til skammar.“
Andri Sigurðsson tekur í sama streng og gagnrýnir þá sem gera lítið úr gagnrýni Karls Héðins: „Það er ódýrt að slá sér á brjóst með þessum hætti og sussa á fólk sem hefur starfað í mörg ár í flokknum eins og Karl Héðinn.“