Auglýsing

Dóri DNA með hugleiðingar um framtíð Mosfellsbæjar: „Þetta getur orðið paradís“

Halldór Halldórsson eða Dóri DNA hefur, að eigin sögn, haft Mosfellsbæ á heilanum að undanförnu og hefur sett fram hugmyndir sínar um framtíð bæjarins og þá möguleika sem hann telur liggja í skipulagi Blikastaðalands.

Í hugleiðingum sínum, sem hann deildi á X segir hann að Mosfellsbær hafi hingað til verið „bær án mannlífs“ en ítrekar að framtíðin geti orðið spennandi ef rétt er haldið á spöðunum.

„Urban Skandinavíu-paradís“

Dóri nefnir sérstaklega skipulag Blikastaðalands þar sem fyrirhugað er að byggja upp nýtískulegt borgarhverfi.

Hann lýsir svæðinu sem mögulegri „urban Skandinavíu-paradís“ þar sem stórar hugmyndir og metnaður séu efst á dagskrá.

„Þetta er akkúrat það sem vantar,“ segir hann og nefnir að fyrirhuguð þjónusta og uppbygging í kringum gamla bæinn Blikastaði sé sérstaklega spennandi.

„Ég elska þegar hugsað er stórt.“

Hvað vantar í Mosfellsbæ?

Dóri veltir því þó fyrir sér hvaða þjónusta og rými bæjarbúar raunverulega þurfi.

Hann leggur áherslu á að forðast sömu gömlu keðjuverslanirnar og ópersónulegu rýmin sem ekki bæta við stemningu.

„Við þurfum eitthvað meira. Fjölnota svið fyrir tónleika og leiksýningar? Brugghús þar sem húðflúraðir gaurar reykja svínakjöt og dæla öllurum? Skeitpark fyrir krakkana eða kannski Fab-lab fyrir skapandi unga ofurhuga?“

Hann bendir á að margt vanti í bæinn og að það sé mikilvægt að þjónusta sé skipulögð með menningu og þarfir samfélagsins í huga en ekki bara elta það er vinsælast í borginni í augnablikinu.

Umræða um umferð og mannlíf

Hann segir áhyggjur bæjarbúa af aukinni umferð hafa verið ræddar á fundi í Hlégarði í vikunni þar sem frumdrög að skipulaginu voru kynnt.

Dóri tekur undir þær áhyggjur en segir samt: „Ég hef svo miklar áhyggjur af umferðinni að ég er bara hættur að keyra og tek strætó og hugsa um hvort bíllinn minn sakni mín ekki.“

Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að fjölga fólki og skapa meira mannlíf í bænum.

„Meira fólk, fleiri torg, meira samfélag. Það er eina lausnin á flestum vandamálum.“

„Látið hlutina gerast“

Dóri hvetur Mosfellinga til að ræða saman og koma með hugmyndir að því sem bæjarfélagið þarfnast.

„Það þýðir ekkert að sitja heima og vona að eitthvað skemmtilegt gerist“

Hann lokar hugleiðingum sínum á þessari spurningu og kallar eftir því að fólk taki þátt í að móta framtíð bæjarins.

„Hvað sárvantar í Mosfellsbæ?“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing