Jakob Reynir Jakobsson er 43 ára og hann er nýjasti gesturinn í hlaðvarpinu Fullorðins á streymisveitunni Brotkast.
Í þættinum opnar Jakob sig um æsku sína, unglingsárin og baráttuna við fíknisjúkdóm en Jakob hefur lengi glímt við fíkn.
Í viðtalinu lýsir hann áskorunum sínum og hvernig hann fann leiðina til bata. Frásögn hans er áhrifarík og veitir innsýn í ferðalag hans.
Tenging er svo mikilvæg
„Þetta snýst allt um tengingu,“ segir Jakob og rifjar upp að í hans tilfelli muni hann enn í dag eftir fólkinu sem aðstoðaði hann á vegi sínum eða kenndi honum, hvort semþað var á píanó eða lífslexíur, vegna þess að hann tengdist þeim.
Hann segir að í sinni vinnu sjái hann alltof mörg dæmi um tengslarof og nefnir dæmi um foreldri sem kemur inn á veitingastað með barn sitt en svo sitji báðir aðilar í símanum, enginn er að tengjast, enginn er að eiga gæðastund með hinum aðilanum, engin nánd.
Foreldrarnir séu að tala við hvort annað meðan börnin eru upptekin við þá afþreyingu sem síminn býður upp á.
Jakob segist grípa inn í þegar hann sér slíkt gerast og hans aðferð sé einfaldlega að fara með blað og liti á borðið og munurinn sjáist um leið.
„Þá fer síminn niður, heyrnartólin af og þau fara öll að lita,“ segir Jakob.
Hann segir að umsvifalaust fari að verða samskipti, foreldrar fari að hrósa börnunum sínum og tenging og minningar eigi sér stað í stað þess að barnið sé bara glápandi á skjáinn á símanum.
„Þetta er svo galið, þetta er svo algengt,“ segir Kidda þáttastjórnandi.
Dreymir um símalaust umhverfi
Jakob segist eiga þann draum að setja á laggirnar veitingastað eða kaffihús sem myndi loka á allt símasamband þegar gengið er inn.
Slíkt myndi „neyða“ fólk til þess að eiga samskipti hvert við annað í staðinn fyrir að glápa bara á símann.
Hann segir að það sé ákaflega áhugavert að hugsa til þess hvað myndi gerast þegar fólk kæmi að fá sér kaffibolla eða mat, vitandi að þar inni væri einfaldlega ekkert símasamband og engin leið að komast á netið.
Þáttastjórnandi segir að það sé algengt að bæði foreldrar og börn sitji og stari bara á símana sína og Jakob segir að hann grínist oft með það við hópa þar sem allir eru niðursokknir í símana að reglan sé sú að sá sem sé mest í símanum borgi reikninginn.
Við það fari allir símar á borðið og það sé eins og fólk átti sig á hvernig það lítur út.
Jakob segir að síminn eigi að vera hjálpartæki fyrir börn og geti verið nauðsynlegt til að ná sambandi við þau, en sími megi ekki verða hækja og að börn verði að geta verið án síma án þess að það bitni á geðheilsu þeirra.
Brot úr viðtalinu má sjá hér fyrir neðan en ef þú vilt horfa á þáttinn í heild sinni geturðu tryggt þér áskrift að streymistveitunni Brotkast hér.