Youtube rásin Megalag fletti nýlega ofan af einu stærsta svindli sem upp hefur komist á netinu og hefur myndbandið þegar fengið milljónir áhorfa.
Svindlið virkar á þann hátt að vinsælir áhrifavaldar um allan heim fá borgað fyrir að auglýsa vöru, sem í þessu tilfelli er svokallað ‘extension’ eða viðbót, við netvafrann þinn.
Viðbótin heitir ‘Honey’ og tilgangur hennar er að athuga hvort til séu afsláttarkóðar á netinu og setja þann hagstæðasta í gluggann til að spara kaupandanum pening við innkaupin.
Afsláttarkóðar eru vinsælir hjá bæði stórum og smáum áhrifavöldum og geta sparað tugi prósenta af kaupvirði vöru.
Hvernig virkar svindlið?
Þegar afsláttarkóðar eru nýttir eða ýtt er á hlekk á vef áhrifavaldsins eða fyrirtækisins sem auglýsti vöruna þá sér verslunin hvaðan viðskiptavinurinn kemur og umbunar auglýsandanum eftir því.
Honey hefur greitt vinsælustu áhrifavöldum heims stórar upphæðir fyrir að auglýsa vöru sem ætlað er að ræna þá
Vafrinn vistar svo cookie í allt að 30 daga með þessari vísan í þann sem auglýsti vöruna ef vera skyldi að viðskiptavinurinn kaupi vöruna ekki strax heldur komi seinna til að ganga frá kaupunum.
Það sem viðbótin ‘Honey’ gerir er að þegar hún er nýtt til þess að athuga með afsláttarkóðann, þá eyðir viðbótin allri tilvísan í auglýsandann en setur svo sjálfa sig í staðinn.
Með þessu móti stelur viðbótin öllum tekjum sem sá sem hafði fyrir því að markaðssetja og auglýsa vöruna hefði fengið.
Siðlausir viðskiptahættir
Fyrirtækið Paypal á viðbótina Honey en það hefur greitt vinsælustu áhrifavöldum heims stórar upphæðir fyrir að auglýsa vöru sem ætlað er að ræna þá og hleypur þessi upphæð þegar á tugum ef ekki hundruðum milljarða króna enda viðbótin verið í notkun í áraraðir.
En þar með er ekki öll sagan sögð en viðbótin finnur ekki alltaf besta afsláttinn fyrir viðskiptavininn heldur bara það sem söluaðilinn velur að birtist á síðu fyrirtækisins.
Á þennan hátt eru stundum til afsláttarkóðar upp á 20 prósent en Honey sýnir þér einungis afslátt upp á 10 prósent.
Þannig borgar það sig fyrir fyrirtæki að vera í viðskiptum við Honey því þeir sem nota viðbótina hafa ekki fyrir því að leita að betri afslætti annarsstaðar.
Með þessu er svindlað á öllum sem nota viðbótina en Paypal rakar til sín óheyrilegum upphæðum.
Viðbótin stelur og blekkir á fleiri vegu en hægt er að sjá fulla umfjöllun Megalag í spilaranum hér fyrir neðan.