Auglýsing

Ekkert minna um kynferðisofbeldi í íslenskum fangelsum en annarsstaðar

Kristel Dögg Vilhjálmsdóttir, sálfræðimenntaður rannsakandi, mætti í Spjallið með Frosta Logasyni, þar sem hún ræddi niðurstöður nýlegrar rannsóknar sinnar á ofbeldi innan veggja íslenskra fangelsa.

Samkvæmt Kristel er kynferðisofbeldi meðal fanga talsvert algengara en margir gera sér grein fyrir, og tíðni þess er á pari við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.

Hún segir þó að málefnið sé mjög „tabú“ og að erfitt sé að fá fanga til að stíga fram og segja frá reynslu sinni.

Falinn veruleiki í fangelsum

Kristel leggur áherslu á að umræða um kynferðisofbeldi í fangelsum sé lítil sem engin, enda sé þetta málaflokkur sem fáir vilja taka á.

„Þetta er mjög dulinn veruleiki. Fangar eiga almennt erfitt með að viðurkenna að þeir hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi, og hvað þá í umhverfi þar sem þeir mega ekki sýna veikleika,“ segir hún.

„Þeir sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í fangelsi eru líklegri til að bera vopn, eiga í erfiðleikum með samskipti við aðra fanga og draga sig meira í hlé“

Hún útskýrir að vegna menningar sem ríkir í fangelsum sé sérstaklega erfitt fyrir karlkyns fanga að ræða þetta.

„Þegar þú ert í umhverfi sem bælir niður tilfinningar og þar sem veikleikar eru ekki vel liðnir, verður þetta mun erfiðara. Það getur haft mjög alvarleg áhrif á betrun fanga, þar sem þeir fá ekki tækifæri til að vinna úr þessum áföllum,“ segir hún.

Afleiðingar kynferðisofbeldis í fangelsum

Niðurstöður rannsóknar Kristelar sýna að fangar sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eru mun líklegri til að þróa með sér áfallastreituröskun og reiði.

„Þeir sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í fangelsi eru líklegri til að bera vopn, eiga í erfiðleikum með samskipti við aðra fanga og draga sig meira í hlé,“ segir hún.

Hún segir að margir upplifi klassísk áfallastreytueinkenni eins og martraðir, stöðuga spennu og „fight or flight“-viðbrögð.

„Það kom líka fram að fleiri hafa heyrt af kynferðisofbeldi í fangelsum en viðurkenna sjálfir að hafa orðið fyrir því. Það bendir til þess að vandamálið sé stærra en rannsóknin gat sýnt,“ segir hún.

Tabú að tala um ofbeldi gegn föngum

Kristel bendir á að samfélagið eigi erfitt með að viðurkenna að fangar geti verið þolendur.

„Þetta eru einstaklingar sem hafa brotið af sér og eru oft álitnir utan samfélagsins. Það er því enn meira tabú að ræða það að þeir sjálfir verði fyrir ofbeldi,“ segir hún.

Hún telur mikilvægt að þessi umræða opnist meira.
„Við megum ekki gera lítið úr því hversu alvarlegt það er að einhver verði fyrir kynferðisofbeldi, sama hver hann er. Það er slæmt fyrir alla að hleypa föngum út í samfélagið með ómeðhöndluð áfallastreytueinkenni. Það gerir ekki samfélagið öruggara og það hjálpar ekki þeim sem urðu fyrir ofbeldi.“

Þörf á úrbótum í stuðningi við fanga

Kristel segir að þó að geðheilbrigðisteymi hafi verið sett á laggirnar innan fangelsiskerfisins, þá sé það langt frá því að duga til verksins.

„Það vantar ennþá töluvert upp á að fangar fái nauðsynlega aðstoð. Þeir þurfa stuðning strax eftir áfall, en í dag er það oft ekki í boði. Fangar þurfa að hafa aðgang að úrræðum og það þarf að skapa rými fyrir þá til að vinna úr áföllum,“ segir hún.

„Mér finnst rosalega gott þegar karlar stíga fram og segja frá sinni reynslu. Það þarf ekki að vera keppni í þessum málum – ofbeldi er ofbeldi, sama hver verður fyrir því“

Hún segir að í raun séu íslensk fangelsi ekkert frábrugðin því sem gerist annars staðar.
„Við erum ekkert heilagri en önnur lönd þegar kemur að fangelsismálum og ofbeldi innan þeirra. Niðurstöður mínar sýna að við erum á mjög svipuðu róli og önnur lönd sem hafa rannsakað þetta mál.“

Breytt viðhorf og betri úrræði nauðsynleg

Kristel telur að betra stuðningskerfi fyrir fanga gæti haft jákvæð áhrif á samfélagið í heild.

„Það er betra fyrir samfélagið ef fangar koma út endurhæfðir, með betri tilfinningastjórn og breytt viðhorf. Það gefur þeim meiri lífsgæði og hjálpar þeim að finna betri farveg í lífinu en áður,“ segir hún.

Kristel segir líka mikilvægt að karlar almennt finni meira rými til að ræða kynferðisofbeldi.
„Mér finnst rosalega gott þegar karlar stíga fram og segja frá sinni reynslu. Það þarf ekki að vera keppni í þessum málum – ofbeldi er ofbeldi, sama hver verður fyrir því.“

Kristel leggur áherslu á að samféagið verði að horfast í augu við þennan veruleika. „Við verðum að ræða þetta opinskátt, því það hjálpar engum að þegja yfir þessu.“

Hægt er að horfa á brot úr þættinum hér fyrir neðan en ef þú vilt hlusta á allt viðtalið geturðu tryggt þér áskrift að Brotkast.is hérna.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing