Ekkert lát er á eldgosinu í Svartsengi, rétt fyrir utan Grindavík en það hófst þann 16. mars. Samkvæmt sérfræðingum Veðurstofu Íslands gæti þetta þýtt að það sé búið að ná ákveðnu jafnvægi og gæti ein sviðsmyndin verið sú að það myndi gjósa þarna í einhvern tíma – að minnsta kosti lengur en sérfræðingar töldu í byrjun.
Þá eru skráð þrjú gos í Svartsengiskerfinu en þau komu upp í Reykjaneseldum sem stóðu yfir í 30 ár. Nú hefur Svartsengiskerfið hinsvegar fært okkur fjögur gos á fjórum mánuðum.
Sérfræðingar töldu nefnilega í byrjun að þetta gos myndi verða svipað og hin eldgosin – þau þrjú sem hafa orðið á svæðinu síðan í desember 2023. Í dag er samt öllum orðið ljóst að svo er ekki. Áfram eru virk gosop á sömu stöðum og segja sérfræðingar Veðurstofunnar að virkni eldgossins hafi lítið breyst og haldist stöðug
Um er að ræða fordæmalausa tíma á Reykjanesskaganum en þarna gaus síðast fyrir 784 árum. Þá eru skráð þrjú gos í Svartsengiskerfinu en þau komu upp í Reykjaneseldum sem stóðu yfir í 30 ár. Nú hefur Svartsengiskerfið hinsvegar fært okkur fjögur gos á fjórum mánuðum.
Meiri og meiri kvika streymir
„Hraun rennur frá gígunum í suður ofan á hrauni sem rann á fyrstu dögum gossins. Lítil sem engin hreyfing hefur mælst á hraunjöðrum nærri Suðurstrandarvegi og Svartsengi,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands um stöðu hraunjaðranna. Þá segir einnig að á „bylgjuvíxlmynd“ sem birt var í vikunni sjást skýr merki um landris í Svartsengi frá 17. til 18. mars.
„GPS mælingar frá 18. mars sýna að mögulega dragi úr landrisinu. Það gæti verið vegna þess að nú streymir kvika uppá yfirborð í Sundhnúksgígaröðinni og safnast því ekki saman undir Svartsengi. Þróun eldgossins og aflögunarmælingar næstu daga munu leiða það í ljós hvort jafnvægi komist á innstreymi kviku undir Svartsengi og hraunflæði á yfirborði í Sundhnúksgígaröðinni,“ segir Veðurstofa Íslands í sömu tilkynningu.
Goshrina með hléum í þrjátíu ár
Síðustu eldgos í eldstöðvarkerfinu, sem kennt er við Svartsengi, voru með hléum í Reykjaneseldum sem stóðu yfir í þrjátíu ár eða frá 1210-1240. Ýmsar áhugaverðar upplýsingar um sögu Svartsengiskerfisins var að finna í stöðuskýrslu Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra frá því í ársbyrjun árið 2020.
„Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldum sem stóðu yfir með hléum á tímabilinu 1210-1240 en á því tímabili gaus nokkrum sinnum þar af urðu þrjú eldgos í Svartsengiskerfinu. Eldgosin voru hraungos á 1-10 km löngum gossprungum en engin sprengigos eru þekkt í Svartsengiskerfinu. Stærsta gos í hrinunni á 13. öld myndaði Arnarseturshraun (um 0,3 km3 og 20 km2). Algengast er að gos af þessari gerð standi yfir í nokkra daga, uppí nokkrar vikur.“