Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Ef marka má dagbók lögreglunnar er sá tími gengin í garð sem ungmenni fikta með flugelda – öðrum borgurum Reykjavíkur til ama en að minnsta kosti tvö útköll vegna þessa voru skráð hjá lögreglu. Lögreglustöð 1 á höfuðborgarsvæðinu, sem sinnir útköllum í Austurbæ, Vesturbæ, miðborginni og Seltjarnarnesi, fékk tilkynningu um að flugeldum hafi verið kastað inn á svalir en samkvæmt dagbókinni voru aðilarnir farnir þegar lögreglu bar að.
Þá kom einnig tilkynning vegna flugelda inn á lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, en samkvæmt lögreglu voru þar ungmenni að sprengja. Voru þau farin þegar lögreglumenn mættu á staðinn.
Nokkrir aðilar voru til vandræða á höfuðborgarsvæðinu í nótt og fékk lögregla einhverjar tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir. Óskað var eftir aðstoð lögreglu í miðborg Reykjavíkur við að koma óvelkomnum aðilum út af skemmtistað en þeir voru farnir þegar lögreglu bar að.
Annars voru verkefni lögreglu jafn fjölbreytt og þau voru mörg eins og sést á dagbók lögreglu sem Nútíminn birtir hér fyrir neðan:
Stöð 1 – Austurbær, Vesturbær, Miðborg og Seltjarnarnes
- Þó nokkrar tilkynningar um aðila í annarlegu ástandi og hávaðakvartanir bárust lögreglu í kvöld/nótt.
- Tilkynnt um að flugeldum hafi verið kastað inn á svalir, aðilarnir farnir þegar lögreglu bar að.
- Tilkynnt um umferðarslys, minniháttar eignartjón og engin slys á fólki.
- Þá var óskað aðstoðar lögreglu við að koma óvelkomnum aðilum út af skemmtistað í miðborginni. Aðilarnir farnir þegar lögreglu bar að.
- Tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir.
Stöð 2 – Hafnarfjörður og Garðabær
- Tilkynnt um umferðaróhapp, við eftirgrennslan reyndist annar ökumannanna sviptur ökuréttindum og grunaður fyrir að vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann var því handtekinn og vistaður í þágu rannsókn málsins.
- Tilkynnt um samkvæmishávaða.
- Ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, handtekinn og í hefðbundið ferli hjá lögreglu.
Stöð 3 – Kópavogur og Breiðholt
- Tilkynnt um kannabislykt í fjölbýlishúsi.
- Tilkynnt um ungmenni að sprengja flugeldra. Ungmennin farin þegar lögreglu bar að.
Stöð 4 – Grafarvogur, Árbær og Mosfellsbær
- Tilkynnt um aðila í annarlegu ástandi, aðilinn kominn inn á sameign og óskaðist fjarlægður.
- Tilkynnt um þjófnað úr verslun. Hefðbundið ferli hjá lögreglu.
- Tilkynnt um líkamsárás. Einn aðili vistaður í fangaklefa í þágu rannsókn málsins.
- Tilkynnt um rásandi aksturslag á Vesturlandsvegi. Bifreiðin fannst ekki.
- Þó nokkrar aðstoðarbeiðnir sem lögregla á stöð 4 sinnti.