Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi var gestur í þættinum Götustrákar á streymisveitunni Brotkast.
Annar þáttastjórnenda hneykslast á forgangsröðun stjórnvalda og spyr Arnar:
„Nú þurfum við að fara að hugsa um gamla fólkið okkar því hér eru að koma upp atvik á heilsugæslum sem eru ekki manni bjóðandi skilurðu? Það á að fara að stytta opnunartímann í sundi til að spara borginni 28 milljónir, svo er eytt milljörðum á ári í heimskulegar pælingar eins og að setja pálmatré í glerhylki og prjóna 1.600 vettlinga til að setja á gólfið í ráðhúsinu. Hver er að taka þessar ákvarðanir og er það (fólk) að reykja eitthvað úr glerpípu?)
Arnar hlær að spurningunni og segist sjá hlutina þannig að hin pólitíska stétt, sem Íslendingar sitji uppi með, sé farin að þjóna einhverjum fámennum meirihluta úti í heimi eða einhverjum „ríkum sérvitringum“ á Íslandi á kostnað meirihlutans.
Arnar segir það galin tilhugsun að hér á landi sé fólk sem ætlar sér að vinna við að vera stjórnmálamenn. Hann segir slíkt vera slæmt bæði fyrir fólkið sjálft og ekki síst þjóðina.
Stjórnmál eigi að vera vettvangur sem fólk fari inn þegar það vildi hafa áhrif og segja það sem fólk þyrfti að segja. Nú sé hins vegar þannig komið að fólk stefni að því að gera þetta að starfsframa sínum.
Hann telur það blasa við að nú sé svo komið fyrir valdastétt landsins að það búi við annan veruleika en almúgi landsins. Hann líkir hugarfari þeirra við Maríu Antoinette þegar hún spurði af hverju alþýðan í Frakklandi borðaði ekki bara köku þegar þau voru að svelta.
Arnar segir fátt lýsa þessari aftengingu betur en nýleg hrókun á ráðherrum í ríkisstjórninni, sem hann segir að hafi verið límd saman og skipst hafi verið á lyklum að ráðuneytum með pompi og prakt eins og ekkert hafi í skorist.
Hann segir að þegar öllu er á botninn hvolft sé ríkisvald bara ætlað til þess að sinna ákveðinni lágmarksþjónustu, eins og að sinna hóflegri löggæslu, samgöngum og tryggja að þegnar landsins geti sofið rólegir á nóttunni.
Hann segir ríkisvaldið eiga að tryggja frelsi borgaranna umfram allt annað en nú sé svo komið að ríkið sé að skerða frelsi borgaranna í staðinn. Það segir hann í algjörri andstæðu við þau grundvallaratriði sem lagt var upp með við stofnun ríkisins og vilji með framboði sínu minna fólk á þetta.
Brot úr viðtalinu má sjá hér fyrir neðan. Ef þú vilt horfa á allt viðtalið getur þú tryggt þér áskrift að streymisveitunni Brotkast.