Samkvæmt frétt RÚV.is hefur Alþingi hefur samþykkt að framlengja tollfrelsi minni skemmtiferðaskipa, sem sigla hringinn í kringum landið, um eitt ár en til stóð að fella það úr gildi um áramót. Frestuninni var komið fyrir í bandormunum svokallaða sem samþykktur var á mánudag.
Cruice Iceland og hafnarstjórar víða á landsbyggðinni höfðu mótmælt og sagt aukna gjaldtöku koma illa við útgerðirnar sem selji ferðir fram í tímann. Innviðagjald á stærri skemmtiferðaskip leggst á skipin frá áramótum eins og til stóð.
„Við erum að lenda í því að Swan Hellenic skipafélag sem kom hérna fimm sinnum núna í sumar að þau eru hætt við og taka það mjög skýrt fram að það er bara út af þessum álögum. Og þau eru hætt við og það munar um minna fyrr litla höfn eins og Djúpavog,“ sagði Páll Guðbrandsson, eigandi Vatnajökuls Travel á dögunum.
Til Djúpavogs hafa komið um 60 skip hvert sumar. Segja má að þar sé höfnin fyrir Jökulsárlón og Fjallsárlón en rútuferðir þangað eru vinsælar. Ófáir hafa tekjur af að flytja ferðamenn úr skipunum í göngu- eða jeppaferðir.