Fjörug umræða um framtíð Reykjavíkurflugvallar myndaðist í Silfrinu sunnudag, þar sem meðal annars kom fram umdeild túlkun á sjúkraflugi og samningum ríkis og borgar.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, viðskiptafræðingur og flugmaður, gagnrýnir sérstaklega ummæli Helgu Völu Helgadóttur, lögfræðings og fyrrum þingmanns Samfylkingarinnar en hún var einn af gestum í Silfrinu.
Í grein sinni á Akureyri.net fer hann yfir frammistöðu Helgu Völu, sem hann segir afhjúpa „yfirgripsmikið þekkingarleysi“ á flugi, sjúkraflugi og flugvöllum almennt.
Segir mikið um þekkingarleysi í umræðunni
Þorvaldur gagnrýnir að þættir á borð við Silfrið bjóði upp á upplýsingar sem hann telur villandi og misvísandi.
„Margir telja ranglega að þessar fullyrðingar séu réttar, þar sem umræðan um flugvöllinn hefur lengi einkennst af upphrópunum frekar en tæknilegri umræðu,“ segir hann.
Í grein sem hann birti í gær tekur hann fyrir nokkur ummæli Helgu Völu og bendir á eftirfarandi:
• Sjúkraflugi er ekki hægt að sinna með þyrlum á sömu forsendum og flugvélum eins og Helga Vala hélt fram, þar sem þyrlur skortir jafnþrýstibúnað sem nauðsynlegur er til að tryggja stöðugt ástand sjúklinga í erfiðu veðri.
• Landhelgisgæslan sinnir ekki sjúkraflugi, heldur er því sinnt með sérútbúnum vélum frá einkaaðilum eins og Mýflugi og Norlandair. Fullyrðing Helgu Völu um að sjúkraflugvélin sé oft upptekin í verkefnum við Miðjarðarhaf er því röng.
• Samningar ríkis og borgar kveða á um að Reykjavíkurflugvöllur víki aðeins ef annar jafngóður eða betri kostur finnst, sem enn hefur ekki gerst. Því stenst ekki sú fullyrðing að ríkið sé að brjóta samninga með áframhaldandi starfsemi flugvallarins.
Hann segir einnig að enginn betri staður hafi fundist fyrir flugvöllinn en Vatnsmýri, þar sem flugvallarstæði þurfa að vera sem lengst frá hindrunum og sem næst sjávarmáli til að tryggja öryggi flugumferðar.
„Í þessari viðkvæmu, tæknilegu og flóknu umræðu var hún augljóslega ekki á heimavelli því allt var rangt sem hún sagði um völlinn. Allt.“
„Það eru einföld vísindi og eðlisfræði,“ segir hann og bendir á að nægt byggingarland sé til annars staðar án þess að fórna mikilvægum innviðum.
Að lokum leggur hann áherslu á mikilvægi þess að opinber umræða um flugvallarmál byggist á staðreyndum fremur en pólitískum hagsmunum eða rangfærslum.