Fyrrum hlaðvarpsstjórnandinn Edda Falak er á leið fyrir dóm, en það eru fyrrum samstarfsmenn hennar, Fjóla Sigurðardóttir og Davíð Goði Þorvarðarson, sem stefna henni.
Samkvæmt fréttastofu RÚV snýst málið um óuppgerðar skuldir sem þau segjast eiga inni hjá Eddu, en samkvæmt þeirra frásögn hrifsaði hún til sín hlaðvarpið Eigin Konur, sem þau áttu öll þátt í að stofna.
Edda og Fjóla stjórnuðu hlaðvarpinu saman til að byrja með, en Davíð Goði segir í 23. þætti hlaðvarpsins Close Friends að hann hafi lagt til að minnsta kosti 10 milljónir króna í stofnun þáttarins.
Davíð Goði og meðstjórnandi hans, Alex Svansson (Alex from Iceland), segja í þættinum að Edda hafi svo hrifsað til sín hlaðvarpið og læst þau hreinlega úti.
Að þeirra sögn hafi Edda svo einfaldlega sagt við þau að hún vonaði að þau gætu óskað henni góðs gengis áður en hún klippti á öll samskipti.
Milljónagróði
Davíð segir að strax hafi verið kominn góður hagnaður af hlaðvarpinu, en hvorki hann né Fjóla hafi séð eina einustu krónu og segja Eddu hafa haldið eftir öllum peningum sem höfðu safnast upp.
Hljóð var tekið af þegar Davíð Goði nefndi upphæðina, en svo hljómaði sem það væru einhverjir tugir milljóna sem um ræðir.
Þá segja bæði Davíð og Alex að Fjóla hafi orðið fyrir miklu andlegu ofbeldi af hálfu Eddu, en vildu ekki tjá sig frekar um það nema að segja að Edda hafi stundað að rífa hana niður andlega.
Alex segir að hann hafi reynt að vara Davíð við því að hefja samstarf við hana, þar sem Alex hafi sjálfur verið byrjaður að sjá merki um það sem koma skyldi, en öll fjögur voru nánir vinir áður en ósköpin dundu yfir.
Davíð viðurkennir að hafa verið blindaður af vímunni sem fylgdi velgengni hlaðvarpsins og segir það hafa blindað sig fyrir því sem átti að liggja í augum uppi.
Blendnar tilfinningar
Alex segir að það hafi verið blendnar tilfinningar að sjá velgengni Eddu eftir svikin, en þó hann hafi glaðst yfir því að sjá margt sem kom í dagsljósið vegna hennar, þá hafi það alltaf angrað hann að vita að henni hafi alltaf verið alveg sama um fórnarlömbin og hafi eingöngu stundað þetta fyrir peninga og frægð.
Hann segist hafa fengið trú á samfélaginu aftur þegar lygar Eddu voru afhjúpaðar, en hún hafði sagt ósatt um kynferðislega áreitni sem átti að hafa gerst á hennar gömlu vinnustöðum.
Edda var þá nýbúin að gera samning við Heimildina um að hefja þar störf við rannsóknarblaðamennsku og sagði að það hefði verið missögn hjá sér.
Sigurður Kári Kristjánsson, lögfræðingur Davíðs og Fjólu, sagði í viðtali við RÚV að langur aðdragandi sé að stefnunni og að markmiðið sé að reyna að semja áður en málið fer fyrir dóm á fimmtudaginn næsta.