Auglýsing

Geðlækningar á tímamótum – Fræðsla og rannsóknir á hugvíkkandi efnum

Sara María Júlíudóttir skrifar…

Umræðan um hugvíkkandi efni hefur lengi verið umvafin rangfærslum og fordómum. Hvað eru hugvíkkandi efni og hver geta áhrif þeirra orðið á geðheilbrigði mannkyns?
Fyrirhuguð ráðstefna, Psychedelics as Medicine 2025 (PAM2025), sem haldin verður í Hörpu í Reykjavík 27. og 28. febrúar er einmitt vettvangur fyrir fræðslu, vitundarvakningu og upprætingu úreltara hugmynda um hugvíkkandi efni. Auknar vísindalegar rannsóknir og árangur hugvíkkandi efna í meðferðarskyni hefur hrundið af stað mikilli viðhorfsbreytingu undanfarin ár. Ekki bara viðhorfsbreytingu gagnvart efnunum heldur einnig viðhorfsbreytingu gagnvart geðheilbrigði og þeim fordómum sem geðræn og andleg veikindi hafa löngum mætt í vestrænum samfélögum.

Fræðsla er ekki glæpur

Megintilgangur ráðstefnunnar er einmitt fræðsla um hugvíkkandi efni til þess að útrýma fordómum og rangfærslum. Þó flest þessara efna séu enn sem komið er ekki lögleg hér á landi þá hefur aldrei verið ólöglegt að afla sér þekkingar. Fordómar og rangfærslur hafa ýtt undir ótta og andstöðu við hugvíkkandi efni, en rannsóknir hafa sýnt fram á áður óþekktan árangur í meðferð við ýmsum geðröskunum, t.d. gegn áfallastreituröskun, fíkn, átröskun og meðferðarþráu þunglyndi. PAM2025 ráðstefnan snýst um að opna á upplýsta umræðu um hugvíkkandi efni og ábyrga nálgun á notkun þeirra.

Ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks

Heilbrigðisstarfsfólk ber siðferðislega skyldu til að fræða sig stöðugt um framfarir í vísindum í því skyni að veita sjúklingum sínum bestu mögulegu meðferð. Með auknum rannsóknum sem vitna um árangur hugvíkkandi efna við meðhöndlun geðraskana er nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsfólk sé upplýst og í raun að það sé í fararbroddi þessarar þróunar.

Að mæta á PAM2025 ráðstefnuna snýst ekki um að taka afstöðu með eða á móti hugvíkkandi efnum – heldur um að tryggja að nýjustu vísindaniðurstöður séu aðgengilegar þeim sem geta breytt lífi sjúklinga.

Brautryðjendur meðal fyrirlesara

Á ráðstefnunni halda erindi nokkrir af reyndustu og áhrifamestu sérfræðingum á sviði rannsókna og meðferða með hugvíkkandi efni. Ráðstefnan býður upp á einstakt tækifæri til að hitta sérfræðinga sem eru að móta framtíð geðheilbrigðisþjónustu. Meðal helstu fyrirlesara eru Dr. Gül Dölen, Dr. Rick Doblin, W. Bryan Hubbard, Dr. Pamela Kryskow, Paul Stamets og Simeon Schnapper. Af þeim má nefna að Paul Stamets er einn fremsti sveppafræðingur heims, sem hefur leitt mikilvægar rannsóknir á áhrifum psilocybin í læknisfræði. Þá er Rick Doblin stofnandi MAPS og leiðtogi í baráttunni fyrir samþykki FDA á hugvíkkandi meðferð í Bandaríkjunum. Hver og einn þessara sérfræðinga hefur unnið þrekvirki í rannsóknum og uppfræðslu um hugvíkkandi efni og þannig dregið úr fordómum og opnað umræðuna.

Viðhorfsbreytingar og upplýstar ákvarðanir

Mikil viðhorfsbreyting hefur þegar orðið á sviði hugvíkkandi meðferða og gott dæmi um það er að janúar tölublað American Journal of Psychiatry er alfarið helgað rannsóknum á hugvíkkandi meðferðum. Í því felst ákveðin viðurkenning á rannsóknum undanfarinna ára og undirstrikar það einnig möguleika hugvíkkandi efna innan geðlæknisfræðinnar. Fyrir áhugasama er hægt að nálgast útgáfuna á American Journal of Psychiatry á þessum hlekk: https://psychiatryonline.org/toc/ajp/182/1

Framtíðarsýn

Heimurinn stendur á tímamótum í þróun lækninga með hugvíkkandi efnum. Ríki um allan heim eru farin að endurskoða stefnu sína í þessum málum ljósi sífellt sterkari vísindalegra sannana og rannsókna. Spurningin er ekki lengur hvort hugvíkkandi efni hafi lækningamátt heldur hvernig við getum með ábyrgum hætti innleitt þau í nútíma læknisfræði. Ráðstefnan PAM2025 er meira en ráðstefna; hún er hreyfing í átt að upplýstri ákvarðanatöku, framfarastefnu í löggjöf og mannúðlegri heilbrigðisþjónustu. Hún er tækifæri fyrir Íslendinga til að vera leiðandi í þeirri þróun á heimsvísu. Með því að faðma fræðslu og uppræta fordóma opnum við dyr að framtíð þar sem einstaklingar með meðferðarþolnar raskanir hafa aðgang að lífsbreytandi meðferðum.

Umræðan er hafin. Nú er komið að okkur að hlusta, læra og leiða veginn.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing