Auglýsing

Guðmundur Felix fer í framboð: „Skiptir fyrst og fremst máli hvaða mann forseti hefur að geyma“

Guðmundur Felix Grétarsson missti báða handleggi sína í hörmulegu slysi og var fyrstur allra í veröldinni til að láta græða handleggi á sig aftur.  Guðmundur var gestur í þættinum Spjallið með Frosta Logasyni og fór þar meðal annars yfir ástæður sínar fyrir framboði til forseta Íslands.
„Kannski skiptir mestu máli í forseta hvaða mann þú hefur að geyma. Nú eru PR fulltrúar og auglýsingastofurnar að telja okkur trú um að þessi menntun sé eitthvað sem blífur betur en annað. Guðni er til dæmis ekki vinsæll forseti út af því að hann er svo góður í sagnfræði heldur vegna þess að hann er bara svo góð manneskja. Það er það sem hefur unnið á með hann. Það þekkja allir sem þekkja til Guðna að maðurinn er náttúrulega bara gull af manni. Þetta eru hlutirnir sem skipta kannski mestu máli.”

Aðspurður um sína sérstöðu í þessum kosningum segir Guðmundur:
“Ég get algerlega komið þarna inn og ég get sinnt þessum störfum sem er krafist af mér og ég get líka verið rödd fyrir þá sem kannski hafa ekki rödd vegna þessa og fyrir fatlaða og þá sem kannski eiga undir högg að sækja vegna þess að ég bara þekki það á eigin skinni hvernig er að vera þar. Flestir sem fara í pólitík þeir skreyta sig með þessu þegar þeir fara í kosningar, því að standa vörð um þá sem minna mega sín og eitthvað svona.”

Aðbúnaður fatlaðra er Guðmundi mikilvægur og hann hafði ekki síst áhyggjur af þeim sem yngri eru.
„Það eru alls konar áskoranir að vera fatlaður en sumir eru í verri stöðu en aðrir og þetta fólk, jafnvel ungt fólk, það er sett inn á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og það er ekki einu sinni á sama hjúkrunarheimilinu þannig að það geti alla vega verið eitthvað að spjalla yfir daginn. Það er bara geymt þarna jafnvel árum og áratugum saman og Sjálfsbjargar húsið til dæmis. Ég man þegar ég var ungur og mamma var að vinna hjá Sjálfsbjörgu. Þar gátu fatlaðir búið saman og þar var sundlaug og þar var svona einhver þjónusta. Nú eru þetta bara einhverjar skrifstofur og sjúkra- og iðjuþjálfar og svona. Það býr enginn þarna lengur.”

Guðmundur er greinilega ekki sáttur hvernig komið er fram við fatlaða.
„Ég skil ekki af hverju í samfélagi þar sem er jafn mikið af uppgangi og er hér, af hverju við þurfum að láta örfáa einstaklinga sem hafa misst svo mikið að fólk getur ekki gert sér það í hugarlund og allt það sem öðrum finnst sjálfsagt, þú þarft að panta þér tíma í sturtu og þú færð kannski að fara í sturtu einu sinni í viku. Og þetta er ofan á það að samfélagið setur þig bara til hliðar og gleymir þér.“

Aðspurður hvort þetta sé algjört úrræðaleysi segir Guðmundur það svo vera.
„Já og þetta er í sumum tilfellum kannski fólk sem hefur ekki gott bakland, svo það er kannski ekki mikið af atkvæðum þarna en mælikvarðinn kannski á hversu góð manneskja þú ert er hvernig þú kemur fram við þann sem getur ekkert gert fyrir þig. Horfum núna á þá sem hafa haldið utan um stjórntaumana fram að þessu, hvernig stendur á þessu? Það er alveg nóg til hérna.“

Guðmundur þekkir af eigin raun hvernig það er að missa allt.
„Ef að ég hefði ekki lent í þessu slysi, ég er auðvitað iðnaðarmaður, ég ætti örugglega einbýlishús í Kópavogi og Land Cruiser og snjóðsleða. Það er enginn meiri talsmaður fyrir því að það sé góð atvinnustarfsemi í landinu og nóg að gera og að menn hafi tækifæri til þess að byggja sig upp og vinna sig upp“

„Við þurfum að líta á landið okkar. Við erum bara eins og fjölskylda. Þú vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem sé vanrækt, þetta þarf ekki að vera svona,“ segir Guðmundur að lokum.

Hér fyrir neðan er stutt brot úr viðtalinu en ef þú vilt horfa og hlusta á allt viðtalið þá getur þú gert það með áskrift að hlaðvarpsveitunni Brotkast.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing