Tólf klukkustunda vakt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og fram til fimm í morgun var frekar róleg ef litið er á dagbók embættisins. Tilkynnt var um tvö slys vegna hálku en í báðum tilfellum höfðu einstaklingar runnið til og dottið. Einn í hverfi 101 sem endaði með skurð á hné eftir fallið og annar með skurð í andliti í hverfi 220. Voru þeir báðir fluttir á bráðamóttöku til skoðunar.
Þá var tilkynnt um umferðaróhapp við Esjuna en þar hafði bifreið ekið utan í vegrið. Í dagbókinni kemur fram að lítið tjón hafi verið á bifreiðinni og ökumaður og farþegi ekki slasaðir. Þeir héldu sína leið eftir að hafa rætt við lögreglumenn.
Þá var tilkynnt um slagsmál í hverfi 110 en það er ekki meira farið út í þau handalögmál í dagbókinni.