Flúrarinn Haukur Færseth hjá Black Kross í Kópavogi segir að einn viðskiptavina hans hafi tekið Viagra stuttu áður en hann mætti í flúr en sá hafði viljað fá blek á typpið á sér.
„Hann vildi hafa typpið smá bólgið en um leið og maður byrjar að flúra að þá bara skreppur hann saman,“ segir Haukur og hlær en hann er nýjasti gestur þeirra Dags Gunnars og Ólafs Laufdal í þættinum „Blekaðir“ á hlaðvarpsveitunni Brotkast.
„Ég hef gert þrjá tittlinga og einn pung. Ég geri það ekki aftur. Það er vesen. Ég fer mjög varlega því þetta er svo þunn húð þarna. Ég geri þetta samt ekki aftur, þetta var ekkert gaman.“
Ætlar ekki að sérhæfa sig í þessu
„En tittlinga. Ég hef aldrei gert það – ég get circa ímyndað mér hvernig er að flúra þá og ég held að það sé ekki auðvelt,“ segir Ólafur Laufdal sem hefur þó marga fjöruna sopið þegar það kemur að húðflúrum.
„Nei það er ekki auðvelt. Ég gerði engar línur þá, bara punktalínur litlar. Ég þori ekki að negla þessu inn. Ég veit að Ívar hefur neglt línum inn en ég er ekkert hrifinn af svona tattúum. Maður gerir þetta upp á gamanið við félaga sína en ekkert meira en það.“
„Þú ætlar ekkert að sérhæfa þig í þessu?“
„Nei,“ segir Haukur og hlær. Hann bendi núna alltaf á félaga sinn og kollega á Black Kross.
„Ég bendi öllum á Ívar núna. Hann er svo klikkaður,“ segir Haukur en tekur fram að það hafi ekkert verið óþægilegt að vera með „tilla framan í sér“ eins og þáttastjórnendurnir orðuðu það. Þetta sé bara vinnan hans.
„Þetta er fyndið fyrstu fjórar mínúturnar en svo þarf maður bara að klára þetta,“ segir Haukur.
Nýr þáttur um húðflúr á Íslandi
Blekaðir er glænýr þáttur á hlaðvarpsveitunni Brotkast en hann er í umsjón húðflúraranna Dags Gunnars og Ólafs Laufdals þar sem þeir fara yfir húðflúrssenuna á Íslandi. Þeir eru báðir reyndir húðflúrarar og fá til sín viðmælendur sem hafa einhverja tengingu við hlúðflúr, ýmist húðflúrara eða einstaklinga sem hafa fengið sér húðflúr. Bæði Dagur og Óli starfa við að húðflúra og hafa ótal skemmtilegar sögur að segja sem þeir flétta saman við sögur viðmælenda sinna í þessum skemmtilegu þáttum.