Jón Gauti Dagbjartsson og Haukur Einarsson eru nýjustu gestir Spjallsins með Frosta Logasyni. Þeir félagar eru Grindvíkingar í húð og hár og lýsa þeir í þessu viðtali hvernig þeir hafa upplifað hina ógnvænlegu atburði sem hafa dunið á bæjarfélaginu síðastliðin misseri.
„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá bara molnaði í mér hjartað, það var bara svoleiðis. Ég átti rosalega erfitt þarna á þessu augnabliki og líka þegar hraunið var að fara í fyrsta húsið og svo annað húsið,“ segir Haukur og reynir að lýsa því þegar fjölskyldan horfði á hraunið stefna á íbúabyggðina.
„Við vorum bara fjölskyldan að horfa á þetta og það sagði enginn neitt. Það voru bara allir einhvern veginn að sökkva inn í sína sál – það er rosalega erfitt að lýsa þessu Frosti. Ég myndi ekki óska mínum versta óvini að upplifa þetta.“
Lifa einn dag í einu
Báðir eru þeir sammála um að stjórnvöld þurfi að gera betur í því að taka utan um fólk sem nánast er á vergangi núna, fólkið sem ekki hefur mikið bakland til að halla sér að og hangir í lausu lofti hvað varðar húsnæði, atvinnu og fleira. Haukur segir helgina hafa verið mjög erfiða og á erfitt með að lýsa þeim tilfinningu sem bærðust innra með honum þegar fjölskylda hans horfði á hraunið flæða yfir bæinn í beinni útsendingu í fyrradag.
Jón Gauti segir Grindvíkinga alla finna þó mest til með fjölskyldu utanbæjarmannsins sem hvarf ofan í sprunguna og segir það hafa verið það erfiðasta í þessu öllu. Heilt yfir vilja þeir báðir vera bjartsýnir og vonast til að geta búið áfram í Grindavík en gera sér þó grein fyrir að framtíðin er mjög óljós á þessum tímapunkti og ómögulegt annað en að lifa bara einn dag í einu í þessu.
Fjölskyldurnar vildu allar snúa aftur heim
„Ef maður vill reyna að vera jákvæður, þessar þrjár fjölskyldur ég veit að þær vildu allir koma heim. Þau ætluðu að koma heim til Grindavíkur en húsin þeirra eru farin. Þau fá allt sitt borgað upp í topp en ég er enn í minni óvissu af því að húsið mitt er í góðu lagi. Það er hægt að fara þangað. Það er vissulega komið hraun inn í bæinn. Sjáðu Vestmannaeyjar, geggjað samfélagið í dag. Sjáðu hvað þeir nýttu úr hrauninu. Það eru tækifæri í þessu líka. En ég held að ég sé að fara að búa áfram í Grindavík. En ef ég er að fara að flytja og við öll, þetta er bara „game over“, þá fáum við okkar bætur og þá væri það líka bara skýr lína í sandinn. Þetta er búið og ég byrja bara upp á nýtt annars staðar,“ segir Jón Gauti
„Þá þarf að koma til einhvers konar svona úrskurður yfirvalda um að Grindavíkurbæjar sé óbyggilegt svæði svo allir fái bætt eða hvað,“ spyr Frosti
„Já, en þetta er svo sem fordæmalaust hefur aldrei verið tekin ákvörðun á Íslandi um hér er bæjarfélag og svo bara „no more“. Það hefur aldrei verið gert. Ég veit ekki hvernig það er gert,“ segir Jón Gauti.
Vilja að stjórnvöld hjálpi þeim sem verst standa – strax!
Haukur bendir á þá áhugaverða staðreynd um fólkið sem bjó í Vestmannaeyjum þegar þar gaus árið 1973.
„Það var ekki ríkið sem ýtti fólkinu til Eyja aftur – það var fólkið sem fór aftur – þess vegna er búið þar. Fólkið verður að taka ákvörðun um það líka sjálft.“
„Fólk sem er ennþá á hálfgerðum hrakhólum – ég er heppinn, hann var heppinn, fullt af fólki reddaði sér sjálft með sterkt og gott bakland en það er fullt af fólki sem hefur ekki sama baklandið og það er fullt af fólki á óttalegum hrakhólum. Gerið eitthvað í þessu. Ég veit ekki hvernig er hægt að gera þetta. Sumir segja að sé til nóg af íbúum ok drullist bara til að kaupa þær, þið getið selt þær aftur, hjálpið þessu fólki. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Síðan er bara svo og svo mikið sem ríkið getur gert fyrir okkur akkúrat núna. Það tekur enginn ákvörðun, held ég, að í næstu viku eða vikum „Heyrðu við lokum bara bænum og borgum ykkur út“ þetta er ekki svona auðvelt,“ segir Jón Gauti sem er með skýr skilaboð til ríkisstjórnarinnar.
„Ég segi: Grípiði fólkið sem er í mestu vandræðunum, hjálpið þeim og ekki tala um. Klárið það. Það er hægt og bara drullist til þess strax.“
„Heyr, heyr,“ segir Haukur.
Þú getur séð brot úr þessu viðtali hér fyrir neðan en til þess að hlusta og horfa á allt viðtalið þá skaltu skunda inn á vefsíðu hlaðvarpsveitunnar Brotkast.