Hópur íslenskra ungmenna hefur um tíð stundað þá iðju að beita tálbeituaðferðum og leggja gildrur fyrir þá sem gera tilraunir til að tæla til sín börn á samfélagsmiðlum.
Margir kannast jú við „To Catch a Predator“ þættina þar sem tálbeitur þykjast vera börn á samfélagsmiðlum og bíða svo eftir að einhver sendi þeim skilaboð og byrji með kynferðislega tilburði þegar vinabeiðni er samþykkt.
Íslendingar hafa einnig stundað þessa iðju og í einhverjum tilfellum talið sig vera komið upp um aðila sem sagðir eru hafa það í hyggju að hitta börn til að stunda með þeim kynlíf. Nú hefur hópur íslenskra ungmenna tekið þetta skrefinu lengra.
Telegram nýtt til samskipta
Heimildamaður sagði blaðamanni frá hópi sem sýndi afrakstur af slíkri starfsemi á samfélagsmiðlinum Telegram og blaðamaður hafði uppi á hópnum sem um ræddi.
Í hópnum var mikill fjöldi skjáskota og myndbanda en myndböndin sem stóðu upp úr voru þau sem sögð eru sýna menn sem töldu sig vera að hitta börn en voru síðan lokkaðir á afvikinn stað þar sem gengið var í skrokk á þeim.
Lögregla hefur eindregið varað við aðferðum sem þessum og sagt skýrt að almennum borgurum sé þetta með öllu óheimilt.
Í þeim myndböndum og skjáskotum sem Nútíminn hefur undir höndum eru myndir af þeim sem verið er að skiptast á skilaboðum við og þeir einnig beðnir um að senda myndir af sér í rauntíma svo enginn vafi leiki á að maðurinn sé sá sem hann segist vera.
Hópurinn hefur þannig opinberað nöfn, kennitölur og heimilisföng sumra þessara manna þarna og er talað um að margir þeirra „eigi von á heimsókn“ á næstunni.
Mjög ógeðfelld skilaboð
Skilaboðin eru mörg hver mjög gróf og Nútíminn hefur undir höndum mikinn fjölda slíkra skjáskota, bæði frá mönnum sem eru í myndböndunum en einnig öðrum sem verið er að leiða í gildru til þess að ganga í skrokk á þeim.
Nútíminn setti sig í samband við einn meðlim tálbeituhópsins, sem var sjálfur að hlaða upp myndböndunum og spurði hvort þau væru tilbúin til að svara nokkrum spurningum.
„Við gerum þetta fyrir málstaðinn og til þess að fækka sálarmorðum ungra barna, ekki vegna þess að okkur finnst gaman að berja þetta lið.“
Í myndböndunum virðast mennirnir mæta grunlausir á staðinn eftir að fjöldi skilaboða hafi gengið á milli en hópurinn segist búa til reikninga með nöfnum sem innihalda það fæðingarár sem þau telja mennina leita í.
Langoftast virðast mennirnar senda vinabeiðni og svo hljómar fyrsta skilaboð á þá leið að um misskilning hafi verið að ræða og ekki hafi staðið til að senda vinabeiðnina, en fyrst þau séu nú byrjuð að spjalla saman þá saki varla að halda því áfram.
Af skjáskotunum að dæma virðast slíkar samræður þróast fljótt í að verða kynferðislegar og mjög ógeðfelldar á köflum.
Samþykktu að svara spurningum
Hópurinn var tilbúinn til að svara nokkrum spurningum gegn því að öll andlit, húðflúr og önnur kennileiti myndu vera hulin í myndböndunum.
Hvenær byrjuðu þið á þessu?
„Fyrir um það bil ári síðan“
Af hverju byrjuðuð þið á þessu?
„Maður er að heyra af alltof mörgum börnum sem eru að lenda í þessum ógeðum og á meðan við náum að veiða þá, þá erum við að vonast til þess að þeir “þori” ekki í næsta mission að fá ung börn til sín.
Miðað við hvað þeir verða skíthræddir þá ættu þeir að hætta þessu, ef ekki þá er bara round 2 á þá. Í sambandi við börnin að þá eru þetta hrein sálarmorð ef þessi ógeð ná til þeirra.“
Hvernig vildi til að þetta byrjaði?
„Einfaldlega til þess að sporna eitthvað við því að það eru actual börn sem lenda í þeim. Auk þess eru meðlimir í hópnum mínum sem hafa orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi sem börn.
Það á EKKERT bara að þurfa að lenda í þessum sorum. Það er meira af þessu liði heldur en fólk virkilega heldur, og þó að maður viti að einhver hafi brotið á einhverjum, jafnvel barni að þá erum við oftar en ekki að lenda í því að þeir eru að gera þetta aftur.“
Hvaða aðferð notið þið til að veiða þessa menn?
„Snapchat. Búum til trúverðugan account, þykjumst vera á aldrinum 10 – 14 ára, það er ógeðslega mikið af liði sem eru að adda manni þegar það er greinilega augljóst að það sé “barn” sem á accountinn“.
Sendið þið þeim einhvern tímann að fyrra bragði?
Nei eiginlega ekki, í mestalagi “hæ” en annars eru þeir mjög fljótir í að byrja samræðurnar um leið og maður acceptar þá.“
Hafið þið lent í að mennirnir sjái ykkur og komist undan?
„Aldrei.“
Tilkynnið þið þetta til lögreglu?
„Já. Meðal annars vegna þess að náunginn sem hitti “mig” á sjálfur 10 ára stelpu, ég átti að vera 14 ára, og þessi 4 ár virðast ekki skipta miklu máli í þeirra augum miðað við hvað þeir eru tilbúnir að gera við 14 ára börn.“
Er eitthvað annað sem þið viljið koma á framfæri?
„Við gerum þetta fyrir málstaðinn og til þess að fækka sálarmorðum ungra barna sem vita ekki betur, ekki vegna þess að okkur finnst gaman að berja þetta lið.“
Verulega gróft ofbeldi
Myndböndin sýna sum hver mjög gróft ofbeldi og andlit og auðkenni eins og húðflúr hafa verið hulin og eru þau ekki fyrir viðkvæma.