Garpur Ingason Elísabetarson hefur stigið fram með alvarlegar ásakanir um langvarandi áreitni af hálfu kvenkyns kennara, sem hann segir hafa beinst að sér, fjölskyldu sinni og fleiri einstaklingum, þar á meðal börnum.
Í færslu á samfélagsmiðlum greinir Garpur frá því að konan hafi áreitt hann í heilt ár með alls kyns aðgerðum, þar á meðal skorið á dekk, dreift rangfærslum og sent skilaboð til nánustu fjölskyldu hans.
Hann fullyrðir einnig að hún hafi logið upp á nemendur í skólanum þar sem hún starfar, þar sem haldnir höfðu verið foreldrafundir sem byggðu á fölskum upplýsingum þar sem hún þóttist vera móðir dóttur Garps. Þá hafði hún einnig reynt að hafa samskipti við dóttur hans á samfélagsmiðlum.
Fjölmargar kærur – engin viðbrögð frá lögreglu
Samkvæmt Garpi hefur ítrekað verið reynt að fá lögreglu í málið en það allt saman verið án árangurs.
Hann segir konuna nú þegar vera með fjórar kærur á sér frá öðrum einstaklingum sem hún hafi áreitt.
Þrátt fyrir fjölda gagna og vitnisburða virðist kerfið ekki ætla grípa inn í.
„Lögreglan hefur algjörlega brugðist – og kerfið ef úti það er farið. Það virðast vera mannréttindi að fá að áreita fólk,“ segir Garpur, sem kveðst ekki ætla að gefast upp í baráttunni.
Hann segir að honum hrylli við því að slík manneskja fái að starfa með börnum þrátt fyrir kærur af þessu tagi.
Færslu Garps er hægt að sjá í heild sinni hér fyrir neðan.