Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður, gerir MeToo byltinguna og dómstól götunnar að umtalsefni í nýjasta pistli sínum í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins. Hún gagnrýnir þar hvernig samfélagið hafi um tíma tekið ásökunum sem óyggjandi sönnunum og í raun refsað einstaklingum án þess að nokkur rannsókn hafi farið fram.
Segir hún röksemdafærsluna, sem þá hafi verið svo vinsæl, að alltaf ætti að trúa þeim sem bæru fram ásakanir, enga skoðun standast þar sem alltaf væru til einhverjir sem sökuðu aðra um hluti sem þeir hefðu ekki gert. Einmitt þess vegna segir Kolbrún svo mikilvægt að öll mál séu rannsökuð ofan í kjölinn og að ótækt sé að ásökunin ein sé látin duga sem sönnun um sekt, líkt og óhemju margir hafi verið farnir að aðhyllast þegar byltingin stóð sem hæðst.
Fussað og sveiað yfir grundvallarreglum réttarríkisins
„Í MeToo byltingunni var fussað og sveiað yfir réttarkerfi sem starfar á þennan veg. Það var talið fordómafullt og kvenfjandsamlegt enda afsprengi hins viðbjóðslega feðraveldis,“ segir Kolbrún og bendir á að skiljanlega hefðu ásakaðir karlmenn hreinlega hrannast upp í því andrúmslofti, engum hafi verið leyft að verja sig þegar dómstóli götunnar hafi verið leyft að ganga lausum.
„Enginn skyldi svo reyna að koma þeim til varnar því sá hinn sami væri þá að opinbera sig sem fyrirlitlegan kvenhatara og stuðningsmann hins ógurlega feðraveldis“
Kolbrún segir að þó vissulega hafi einhverjir sekir einstaklingar verið afhjúpaðir þá hafi saklausir menn orðið fyrir samfélagslegri útskúfun, sumir misst störfin sín og aðrir mannorðið. Þá hafi einnig verið dæmi um menn sem hefðu ekki gert neitt stórvæginlegra en að sýna af sér dónaskap eða dómgreindarleysi.
„Nokkuð sem við gerumst öll einhverntíman sek um. En af því að þeir voru karlmenn skyldi þeim öllum refsað, ef ekki með atvinnumissi þá með mannorðsmissi. Enginn skyldi svo reyna að koma þeim til varnar því sá hinn sami væri þá að opinbera sig sem fyrirlitlegan kvenhatara og stuðningsmann hins ógurlega feðraveldis,“ segir Kolbrún.
Þjóðþekktir karlmenn dæmdir í samfélaginu
Í pistlinum er einnig fjallað um hið svokallaða Vítalíu-mál, þar sem fjórir þjóðþekktir karlmenn voru sakaðir um alvarleg brot gegn konu. Kolbrún segir þá hafa misst störf sín og sömuleiðis æruna. Að þeir hafi verið fordæmdir af fjölmiðlum án þess að mál þeirra hafi verið rætt frá báðum hliðum. Engin hafi nennt að hafa fyrir því að heyra þeirra hlið á málinu segir Kolbrún.
„Menn misstu æruna að tilefnislausu en samt þykir best að tala sem minnst um málið“
Kolbrún bendir á að ný gögn sem síðar hafi komið fram, og Mannlíf hefur meðal annarra fjallað um nýverið, hefðu hins vegar sagt allt aðra sögu en þá sem haldið hefði verið að fólki, meðal annars af öllum stærstu fjölmiðlum landsins.
„Ég trúi… ég trúi…“ var ríkjandi stemmning segir Kolbrún og bendir á að fólki hafi fundist þægilegra að svipta fjóra karlmenn mannorðinu heldur en að hafa uppi einhverjar efasemdir, því það hefði þá túlkast sem svik við kvenfrelsið.
Hún varpar fram spurningunni hvort réttlætanlegt sé að dæma einstaklinga seka án réttlátrar málsmeðferðar og bendir á að samfélag sem samþykki slíkt sé á hættulegri braut.
„Það skiptir engu hver réttlætingin fyrir slíkum dómum er. Þjóðfélag sem samþykkir að dæma saklausan mann sekan er alltaf á skelfilega ómanneskjulegum villigötum,“ segir hún í pistlinum.
Lítið fjallað um þegar ásakanir hafi reynst rangar
Þá ræðir Kolbrún einnig um sinnuleysi fjölmiðla til að fjalla um aðrar hliðar þessara mála þegar þær hafi sannarlega komið fram. Þegar ásakanir sem settar hefðu verið fram af miklum þunga í upphafi hafi síðar reynst innihaldslausar eða rýrar hafi einhverja hluta vegna ekki þótt ástæða til að hafa mjög hátt um það.
„Menn misstu æruna að tilefnislausu en samt þykir best að tala sem minnst um málið,“ segir Kolbrún að lokum.