Auglýsing

Karlmennsku-Þorsteinn alls ekki sáttur við að vera ekki boðið á fund forseta Íslands

Þorsteinn V. Einarsson, stofnandi Karlmennskunnar, lýsir óánægju sinni með að hafa ekki verið boðið á fund sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, boðaði til nýverið um jákvæða karlmennsku.

Fundurinn, sem haldinn var á Bessastöðum, var sagður marka upphaf vitundarvakningar um jákvæða karlmennsku og hvernig megi nýta samfélagsmiðla til að ná til drengja.

Í færslu á samfélagsmiðlum gagnrýnir Þorsteinn að honum og öðrum sérfræðingum á sviði karlmennsku hafi ekki verið boðið til fundarins.

Ekki lausn að tala um jákvæða karlmennsku

Hann telur að umræðan um jákvæða karlmennsku sé oft yfirborðskennd og að ekki sé tekist á við rót vandans.

„Rannsóknir og sérfræðingar hafa bent á að það er algjörlega marklaust að breyta einungis birtingarmyndum karlmennskunnar. Það þarf að ráðast að rótum vandans, ekki bara afleiddum birtingarmyndum hans,“ skrifar hann.

Þorsteinn bendir á að óöryggi drengja, námsárangur þeirra og tíðni sjálfsvíga verði ekki skilið nema samfélagið horfist í augu við dýpri ástæður.

Þarf að skoða allan pakkann

Hann gagnrýnir jafnframt að umræðan um karlmennsku snúist oft um „gjald karlmennskunnar“ og að karlar séu tilbúnir að ræða eigin fórnarlambshlutverk en ekki forréttindi, ofbeldi og skaðlega karlmennsku.

„Ef okkur er alvara með að skapa jákvæða eða heilbrigða karlmennsku, þá þarf að skoða allan pakkann. Kvenfyrirlitninguna, hómófóbíuna, ofbeldið, forréttindin og á sama tíma líðan og lífsgæði drengja og karla,“ segir hann og gefur til kynna að ástæða þess að hann var ekki boðaður á fundinn sé mögulega sú að hann hefur verið gagnrýninn á karlrembu, karllægt yfirlæti og forréttindi karla.

„Það þykir kannski ekki nógu kærleiksríkt að benda á ofbeldi, forréttindi og karllægt yfirlæti,“ skrifar hann og veltir fyrir sér hvort hann ætti að breyta um aðferðafræði til að falla betur að umræðunni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing