Auglýsing

Keilir mun sameinast Fjölbrautaskóla Suðurnesja: Fjöldauppsögn á starfsfólki Keilis

Starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurnesja var óvænt kallað til fundar rétt fyrir þrjú í dag en á honum var tilkynnt að búið væri að sameina Keili og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Um er að ræða þær brautir Keilis sem eru á framhaldsskólastigi.

Fjórtán hefur verið sagt upp í kjölfarið en samkvæmt heimildum Nútímans er um að ræða starfsfólk Keilis. Sameiningin er hagræðing í rekstri ríkisins og var hluti af tillögum stýrihóps menntamálaráðherra.

Mikill meirihluti starfsfólks Keilis var á móti sameiningu skólanna og létu þeir það í ljós meðal annars í fjölmiðlum í maí á síðasta ári eftir fund sem var haldinn að frumkvæði stýrihópsins. Einn þeirra sem lét óánægju sína í ljós var framhaldsskólakennarinn Geir Finnsson sem sagði í samtali við Vísi að allt liti út fyrir að búið væri að taka ákvörðun um sameiningu og að umræddur fundur hafi verið svokölluð sýndarsamráð.

„Þetta lyktaði voðalega mikið eins og búið væri að taka ákvörðunina fyrirfram. Í rauninni væri þetta ferli sem var að eiga sér stað eins konar sýndarsamráð,“ sagði Geir. Þá tók hann fram að hann vonaði innilega að hann hefði rangt fyrir sér. Nú er hins vegar ljóst að Geir hafði rétt fyrir sér – skólarnir verða sameinaðir undir þaki Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem tæplega þúsund nemendur stunda nám á hinum ýmsu brautum.

En hagræðing í rekstri þýðir að það þarf að spara og skera niður og hefur, samkvæmt heimildum Nútímans, fjórtán starfsmönnum Keilis verið sagt upp störfum. Uppsagnirnar bárust umræddum starfsmönnum í dag.

Viðbrögð frá stjórnendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis

Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum:

,,Það skiptir miklu máli fyrir okkur að námsframboð fyrir nemendur á Suðurnesjum skerðist ekki. Ég tel að þessar brautir sem um ræðir falli vel að því námi sem fyrir er hjá okkur og að okkur takist að efla þær enn frekar. Þannig getur leikjatölvubrautin fallið vel að tölvufræðibraut skólans og einka- og styrktarþjálfunin verið góð viðbót við íþrótta- og lýðheilsubrautina.  Skólinn hefur verið að efla og auka starfsnám og því verður skoðað og stefnt að yfirfærslu starfsnáms í fótaaðgerðafræði um áramótin. Grunnur þess náms er sambærilegur og grunnur sjúkraliðanáms sem skólinn er með. Með aukinni breidd í námsframboði og góðum tengslum við atvinnulífið er ég viss um að við getum haldið áfram að þróa þessar námsbrautir og skapa þannig aukin tækifæri til náms fyrir nemendur á svæðinu.“

Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis:

,,Það er fyrst og fremst erfitt að þurfa að kveðja starfsfólk í ljósi þessara stóru breytinga á skipuriti Keilis. Það er trú mín að FS hafi alla burði til þess að efla námsbrautirnar enn frekar og afar mikilvæg niðurstaða að námsframboð fyrir íbúa Suðurnesja sé óskert. Jafnframt tel ég allar líkur á að starfsemi brautanna komi með góðan innblástur inn í FS, enda urðu þær til í umhverfi nýsköpunarhugsunar og nútímalegrar nálgunar í námi.  Keilir er á tímamótum í kjölfar þrotlausrar vinnu síðustu ára við það að vinda ofan af óhagstæðum samningum og afar fjölbreyttum krefjandi rekstrareiningum. Nú er tækifæri fyrir Keili til þess að styrkja stoðirnar í kringum Háskólabrú, sem hefur frá upphafi verið hryggjarstykki skólans og fjölsóttasta aðfaranám á Íslandi.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing