Auglýsing

Kona sem hélt hún væri að hjálpa „Brad Pitt“ er orðin alvarlega þunglynd og heimilislaus

Kona nokkur var göbbuð til að láta af hendi 700.000 pund, sem samsvara um 121 milljónum íslenskra króna til einhvers sem notaði AI til að þykjast vera Brad Pitt. Konan þjáist nú af alvarlegu þunglyndi, er heimilislaus og blönk og býr hjá vini sínum á meðan hún reynir í örvæntingu að fá eitthvað af peningum sínum til baka.

Hefur í þrígang reynt að taka sitt eigið líf

Konan, sem hefur aðeins verið kölluð Anne, er með lögfræðing í París sem heitir Laurène Hanna. Sú segir að skjólstæðingur hennar hafi verið kölluð heimsk, barnaleg og vitlaus og hefur Anne verið hrellt svo mikið á netinu, fyrir að falla fyrir netsvindlaranum að hún hafi eytt út samfélagsmiðlum sínum.

„Anne hefur í þrígang reynt að taka sitt eigið líf, en fólk heldur bara áfram að hæðast að henni og lætur hana ekki í friði,“ segir Laurène, en Anne gekk líka í gegnum skilnað vegna þessa.

Anne varð fyrst að skotmarki hjá nettröllunum eftir að hún upplýsti á samfélagsmiðlum að hún hefði gefið peninga til þess, sem hún taldi að væri krabbameinsmeðferð fyrir kvikmyndastjörnuna Brad Pitt.

Það var svo fyrir tveimur mánuðum að Anna var lögð inn á geðdeild þar sem hún dvelur enn í dag.

Ekkert nýtt að fólk sé dregið á asnaeyrunum

Laurène tjáði sig um málið í vikunni og lýsir því sem mjög hræðilegu máli og segist vera undrandi á viðbrögðum almennings.

„Það er ekkert nýtt að fólk sé að nota internetið til að draga fólk á asnaeyrunum og Anne er alls ekki sú fyrsta,“ segir hún og bætir við að það sem Anne þurfi á að halda núna séu góð ráð og að komið sé fram við hana af virðingu.“

Lögfræðingurinn segir einnig að Anne standi nú í málaferlum gegn franska bankanum sínum sem gerði engar athugasemdir við að hún væri að millifæra risastórar summur á mili landa.

Anne, sem er innanhúsarkitekt, segir að allt hafi byrjað þegar hún fékk einkaskilaboð frá einhverjum á samfélagsmiðlum sem þóttist vera móðir Brad Pitt, en hún hafði nýverið birt myndir á Instagram, af sér í flottri skíðaferð í Tignes.

Hann kunni alveg að „tala“ við konur

Daginn eftir fékk hún skilaboð frá „Brad Pitt“ sem sagði að móðir hans hefði talað mjög mikið um hana við hann. Anne, sem var að ganga í gegnum erfiðleika í hjónabandi sínu við mann sem er milljónamæringur, segist hafa myndað vinasamband við þennan „mann„ frá því í febrúar 2023 og fékk send ljóð og falleg orð reglulega.

„Það eru ekki margir menn sem skrifa svona eins og ég kunni vel við manninn sem ég var að tala við. Hann kunni að tala við konur og gerði það vel,“ sagði Anne í samtali við BFMTV.

Hún segist hafa haft sínar efasemdir til að byrja með en þegar hún fór að fá dagleg skilaboð og myndir og myndbönd sem gerð voru með AI varð hún rólegri. Sambandið blómstraði og það leið ekki á löngu þar til Brad bað Anne að giftast sér og fór að segjast ætla að senda henni rándýrar gjafir. Það var alltaf einn hængur á því samt því Anne þurfti alltaf að borga tolla af gjöfunum.

 

Hér eru nokkrar af þeim frekar illa gerðu myndum sem Anne fékk send af „Brad“ á spítalanum:

Krabbamein í nýrum

Þegar svindlarinn fór að fá peninga frá Anne hélt hann áfram að biðja um peninga og var alltaf með einhverjar ástæður fyrir því. Þegar svindlarinn komst að því að Anne fengi peninga útúr skilnaðinum sem hún var að ganga í gegnum, fór hann að verða djarfari í kröfum. Hann sagðist þurfa að fara í aðgerð vegna krabbameins í nýrum og hann gæti ekki notað sína eigin peninga því þeir væru læstir á meðan skilnaður hans og Angelina Jolie væri ekki kominn í gegn.

Það vakti auðvitað athygli Anne að hann talaði aldrei við hana í síma en öll samskipti þeirra áttu sér stað í gegnum textaskilaboð og myndsendingar. Það var svo seinasta hálmstráið þegar hún sá mynd af Brad í fjölmiðlum, með nýju kærustunni sinni, Ines de Ramon.

Anne fór til lögreglunnar og unnið er að því að komast að því hverjir hafa verið á bakvið blekkingarnar.

 

 

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing