Eldur Smári Kristinsson, formaður samtakanna 22 – Hagsmunasamtaka samkynhneigðra, hefur verið kærður fyrir ummæli sín um trans málefni.
Eldur mætti í Spjallið með Frosta Logasyni og þar sagði hann að í raun vonast hann til að málið fari fyrir dómstóla, þar sem hann telur mikilvægt að fá úr því skorið hvort tjáning hans teljist til hatursorðræðu.
Vill skýra línur um tjáningarfrelsi
Eldur hefur verið gagnrýninn á íslensk lög um kynrænt sjálfræði og telur lögin ógna öryggi kvenna með því að leyfa hverjum sem er að skilgreina sig sem konu og þar með fá aðgang að rýmum sem áður voru aðeins fyrir konur.
„Þetta snýst bæði um verndun og öryggi, en líka um virðingu fyrir konum,“ segir Eldur í viðtalinu.
Hann vísar í tölfræði frá Bretlandi þar sem hátt hlutfall transkvenna í fangelsum hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot og segir að kynþáttur eða kynvitund breyti ekki þeirri staðreynd.
Gagnrýni á aðgang transkvenna að kvennarýmum
Í viðtalinu talar Eldur um það að leyfa fólki að skilgreina sig eftir eigin óskum geti skapað hættu, sérstaklega í kvennaklefum og öðrum aðskildum rýmum.
„Ef transmaður kæmi í karlaklefann, þá myndum við ekki upplifa það sem ógn. En ef stórvaxinn karlmaður segist vera kona og gengur nakinn inn í kvennaklefann, þá er það allt önnur staða,“ segir hann og leggur áherslu á að ekki megi gera lítið úr ótta kvenna við slíkar aðstæður.
Segir umræðuna hafa þróast í ranga átt
Eldur bendir á að umræða um transmál hafi þróast á þann veg að hún sé farin að snúast um sérhagsmuni fremur en almenn mannréttindi.
Hann telur að samfélagið þurfi að taka skref til baka og endurskoða stefnu sína.
„Við þurfum að ræða saman og endurskoða það sem hefur gerst. Við erum með kynslóð sem þekkir ekki muninn á mannréttindum, sérréttindum og forréttindum. Það vantar að við sem samfélag förum yfir þessi mál af yfirvegun og ábyrgð,“ segir hann að lokum.
Hægt er að sjá brot úr þættinum hér fyrir neðan en ef þú vilt sjá allt viðtalið geturðu tryggt þér áskrift að streymisveitunni Brotkast hér.