Auglýsing

Kröfðust afsagnar þegar hún setti þumal á færslu Loga Bergmann

Sigríður Hrund Pétursdóttir forsetaframbjóðandi var gestur þáttarins Spjallið með Frosta Logasyni. Meðal umræðuefna var þegar Sigríður líkaði við færslu Loga Bergmanns þegar hann lýsti yfir sakleysi sínu af ásökunum Vítalíu Lazarevu um kynferðislega óviðeigandi athæfi.

Sigríður greinir frá því að við það eitt að líka við færsluna hafi farið af stað atburðarás sem hana óraði ekki fyrir.
„Ég læka við hann ásamt fleirum og mér er strax bent á það að þetta sé ekki sniðugt að gera af því ég er með þetta hlutverk, þetta ólaunaða hlutverk að vera formaður FKA (Félags Kvenna í Atvinnulífinu) og ég segi strax ekkert mál og ég tek þetta til baka.“

Sigríður segir að þarna hafi strax farið af stað umræða meðal meðlima á Facebook síðu félagsins. Sagðist hún hafa verið þakklát fyrir ábendinguna, að mjög gott væri að fá ábendingar um hvernig mætti gera betur og það fengi hana til að vilja gera betur. En svo hafi umræðan af þessari síðu ratað í blöðin og þá hafi vandræðin fyrst byrjað fyrir alvöru.
„Félagið er þannig að þetta er ákveðin uppeldisstöð. Þú ert að læra að gera hluti og þú átt að mega gera mistök segi ég, svo mér fannst það mjög ósanngjarnt að maður mætti ekki gera mistök, mér finnst það algjörlega afleitt.“

Sigríður segir að þarna hafi hún bara verið á fyrra ári sínu í starfi og verið óreynd að miklu leyti og því hafi það verið áfall fyrir hana að sjá andlit sitt í blöðunum ásamt umtalinu sem því fylgdi. Hún hafi ekki borðað mat í 10 daga og varla sofið og að eiginmaðurinn hafi haft af henni miklar áhyggjur.

Frosti spyr hvort þetta hafi kennt henni hvernig sé að vera í þessum sporum, að dregin sé upp af henni ákveðin mynd í fjölmiðlum sem henni þykir ekki sanngjörn og svarar Sigríður að það eitt að líka við færslu á Facebook sé ekki mælikvarði á hvaða mann þú hefur að geyma.

Hún lýsir að henni hafi fundist dómharkan vera mikil og að af einhverjum ástæðum hafi hún allt í einu verið orðinn miðdepillinn í þessu leiðinlega máli þegar að til dæmis Áslaug Arna dómsmálaráðherra hafi líka verið með þumal á þessa færslu en samt hafi hún ekki verið tekin niður á sama máta. Sigríður segir að þetta hafi verið ákveðinn lærdómur fyrir sig og hún trúi að mótlætið og erfiðleikar séu bestu kennararnir.

„Að gera mistök út á torgi og læra þannig, það er ótrúlega ófyrirgefandi og hart… dæmandi. Ég held að það hafi kennt mér mest.“

Hún segir svo að þegar hún sneri til baka hafi stjórn félagsins verið einhuga um að hún ætti að segja af sér, en hún var kosin til starfa af félagsmönnum en ekki stjórninni.
„Ég horfði bara á þær og sagði það er ekki í mínu hjarta. Það er alls ekki það sem að við stöndum fyrir og alls ekki ég, að gera mistök og fara síðan skríðandi út um hurðina. Hvað værum við að kenna hérna? Það er afleitt og það er líka konur eru konum verstar, við skulum ekki stunda það.“

Sigríður sneri til baka í starf sitt og segir að með því hafi hún staðið með sjálfri sér, félaginu og samfélaginu öllu því fólk megi gera mistök og halda áfram með líf sitt og því beri að taka alvarlega þegar úlfaldi er gerður úr mýflugu og ekki síst ef um einkamál sé að ræða.

Sigríður segir mikilvægt að muna að það sé tjáningarfrelsi í landinu og að henni sé í raun frjálst að líka við það sem hana langar til og hún hafi fengið stuðning frá mörgum konum og henni þótti mjög vænt um að fá stuðning frá konum sem höfðu sjálfar lent í ofbeldi.
„Ég fagna umræðunni alveg sama hvað hún er erfið og ég get aldrei ekki horfst í augu við þær aðstæður sem upp koma, það er mér ekki eðlislægt. Frekar stend ég bara og segi ég veit að þetta er erfitt að tala um þetta, ég veit það er erfitt að ganga í gegnum þetta en við verðum að gera það saman,“ sagði Sigríður að lokum.

Hér fyrir neðan er stutt brot úr viðtalinu en ef þú vilt horfa og hlusta á allt viðtalið þá getur þú gert það með áskrift að hlaðvarpsveitunni Brotkast.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing