Lögreglan á Suðurlandi hefur þessa vikuna lagt sérstaka áherslu á að kanna rekstrarleyfi þeirra sem stunda fólksflutninga í atvinnuskyni og réttindi þeirra ökumanna sem aka með farþega.
Í síðustu viku stöðvaði lögreglan tvo aðila sem voru kærðir fyrir að sinna farþegaflutningum án tilskilinna leyfa.
Að auki var eftirlit haft með öðrum atvinnutækjum, og sjö aðilar kærðir fyrir ásþungabrot, þrír fyrir slæman frágang á farmi og tveir fyrir ranga notkun ökutækja.
Önnur mál komið upp í kjölfarið
Lögreglan greinir einnig frá því að fjöldi annarra umferðarlagabrota hafi komið upp.
Alls voru 41 ökumaður kærður fyrir hraðakstur og tíu fyrir að aka án gildra ökuréttinda.
Fimm einstaklingar voru stöðvaðir, grunaðir um ölvunarakstur og þrír til viðbótar fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Sex umferðaróhöpp voru skráð á tímabilinu, þar af þrjú þar sem slys urðu á fólki.
Þá komu upp þrjú fíkniefnamál sem nú eru til rannsóknar.
Loks var á annan tug nýskráninga á hegningarlagabrotum tilkynnt til lögreglu.
Meðal þeirra mála sem eru til rannsóknar eru líkamsárásir, þjófnaðir og eignaspjöll.
Lögreglan segist halda áfram öflugu eftirliti og hvetur vegfarendur til að fylgja lögum og reglum í umferðinni.