Lögreglumaður sem gaf 95 ára gamalli konu raflost með rafbyssu á áströlsku hjúkrunarheimili hefur verið fundinn sekur um manndráp af gáleysi, eftir að kviðdómurinn komst að því að ekki hafi staðið ógn af langömmunni, sem hélt á hníf, er lögreglumaðurinn skaut rafskautunum í konuna.
Kristian White, yfirlögregluþjónn, var annar tveggja lögreglumanna sem kallaðir voru út í maí á síðasta ári til Yallambee Lodge, hjúkrunarheimilisins, þegar starfsfólk bað um hjálp vegna íbúa heimilisins sem hélt á tveimur hnífum þegar hún gekk um með göngugrind.
Clare Nowland sem var með heilabilun, hafði hafnað beiðni umönnunaraðila sinna um að fara aftur inn í herbergið sitt og kastaði hnífi að starfsmanni sem féll á gólfið áður en þeir hringdu í neyðarþjónustu, samkvæmt dómsskjölum.
Samkvæmt dómnum hafði hún króuð af úti í horni á skrifstofu af lögreglu og sjúkraliðum og neitaði að leggja frá sér steikarhníf þegar White skaut rafskautunum í líkama hennar.
Það tók kviðdóminn rúma þrjá daga að ákveða sig og á endanum var White fundinn sekur um manndráp af gáleysi.
Segir gömlu konuna hafa sýnt ógnandi hegðun
White hafði sagt fyrir rétti að hann hafi talið að hún hafi sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun og líkleg til átaka og því hafi hann fundið sig knúinn til þess að skjóta frú. Nowland og að hann hafi farið eftir öllum hefðbundnum verklagsreglum. Reglurnar kveða á um að aðeins megi nota rafbyssu gegn öldruðu fólki í „sérstökum kringumstæðum“.
Ákæruvaldið hélt því hinsvegar fram að notkun White á rafbyssunni hefði verið „algerlega óþörf“ og óhófleg valdbeiting gegn veikri, eldri konu. Eftir að hún varð fyrir raflostinu datt Nowland aftur fyrir sig og skall með höfuðið í gólfið. Hún lést viku síðar á sjúkrahúsi.
Fjölskylda Nowland sendi frá sér yfirlýsingu eftir dóminn þar sem hún þakkaði dómara, kviðdómi og saksóknara.
Myndband af atvikinu var spilað fyrir dómnefndina á mánudaginn og sýndi hvernig atvikið þróaðist á hjúkrunaheimilinu um klukkan fimm að morgni 17. maí 2023.
Í vitnastúkunni var White beðinn um að útskýra hvað fór í gegnum huga hans þegar hann og félagi hans nálguðust Nowland inni á lítilli skrifstofu á hjúkrunarheimilinu. Hún var í náttfötum og var með göngugrind nálægt sér til stuðnings.
Þegar White var spurður um fyrstu kynni sín af Nowland, viðurkenndi White að hann hafi áttað sig á að um aldraða konu væri að ræða, en efaðist um að hún hafi verið ringluð og veik.
„Dálítið afstæð spurning,“ sagði White þegar hann var spurður að því hvort að hún hafi ekki litið út fyrir að vera með óráði.
Á meðan White var viðurkenndi því að Nowland væri smá að vexti, sagði hann, þegar hann var spurður hvort hún væri hafi litið út fyrir að vera veik, að hann gæti ekki metið það.
„Sérðu þetta? Þetta er rafbyssa.“
Á myndbandinu má heyra White ítrekað biðja Nowland um að leggja hnífinn á borðið. Eftir að hún neitaði og stóð upp, með aðra höndina á göngugrindinni, dró White upp rafbyssuna.
„Sérðu þetta?“ sagði White þegar hann dró upp byssuna. „Þetta er rafbyssa. Slepptu nú hnífnum,“ sagði hann svo. Síðan eftir nokkrar tilraunir í viðbót, varaði hann hana við og sagði að hann myndu skjóta.
Eftir fleiri viðvaranir má heyra White segja: „Nei, ég geri það þá“ og kveikti þá á rafbyssunni.
Dómstóllinn sá að White beindi rafbyssunni þá að Nowland og ljós úr byssunni glampaði í augum hennar í eina mínútu áður en hann skaut.
Aðspurður hvað hann meinti með „Neei, ég geri það þá“ og hvort það væri merki um að hann væri kominn með nóg og hefði hætt öllum tilraunum til að leysa málið vriðsamlega, var hann því ósammála.
„Ég ætlaði að skjóta rafskautum á 95 ára manneskju. Mér fannst það vera eini kosturinn til að tryggja örugga útkomu,“ sagði hann.
„Ég skildi alveg að þetta myndi valda henni einhverskonar, þú veist, meiðslum og sársauka, en mér fannst áhættan hafa aukist að því marki að, þú veist, það krafðist lausnar“ sagði White.
„Ég vildi ekki eiga það á hættu að hún gengi úti á gang með hnífinn á lofti,“ bætti hann við.
Manninum vikið úr starfi
Í stuttu máli benti ríkissaksóknari Brett Hatfield á mótsagnir í vitnisburði White þegar hann reyndi að réttlæta gjörðir sínar við notkun rafbyssunnar.
„Svörin voru óskýr og breytust stöðugt, jafnvel innan nokkurra spurninga,“ sagði hann, en lýsti einnig sumum svörum White sem „frávíkjanlegum og ósannfærandi.“
„Þetta var ekki aðeins brot á umönnunarreglum,“ sagði Hatfield. „Þetta var svo algerlega óþörf og augljóslega óhófleg valdbeiting á frú Nowland að það réttlætir refsingu fyrir manndráp,“ sagði hann.
White var vikið úr starfi NSW lögreglunnar eftir atvikið.