Verði af samruna JBT og Marels eftir rúma viku verður félagið það verðmætasta í Kauphöll Íslands með markaðsverðmæti í kringum 770 milljarða króna. Þetta kemur fram í mjög líflegum umræðum þeirra Jóns G. Haukssonar og Sigurðar M. Jónssonar í Hluthafaspjallinu, hlaðvarpsþætti þeirra á efnisveitunni Brotkast.is. Gert er ráð fyrir að félagið verði bæði skráð i Reykjavík og New York.
Alls þurfa 90% hluthafa í Marel að samþykkja yfirtökutilboð JBT í Marel með samruna félaganna að markmiði. Úrslit liggja yfir eftir rúma viku, 20 des. Stærstu eigendur Marels hafa þegar lýst því yfir að þeir muni ganga að tilboðinu. Í tilboði JBT er gert ráð fyrir genginu 3,60 evrum á hlut við yfirtökuna. Það eru ekki bara hluthafar Marels sem þurfa að samþykkja, heldur líka allir hluthafar JBT auk eftirlitsaðila.
„Ég tel yfirgnæfandi líkur á að tilboðið verði samþykkt,“ segir Jón G. „Lengi vel voru menn eitthvað að velta því fyrir sér hvort þrír stærstu lífeyrissjóðirnir, sem eiga rúmlega 15% hlut í Marel, yrði eitthvað hikandi við að samþykkja tilboðið í ljósi atvinnuhagsmuna, þ.e. hvort Marel verði áfram starfrækt á Íslandi. En þeir ætla að samþykkja og líta auðvitað á þetta fyrst og fremst sem fjárfestar.“
Alþjóðlegir fjárfestar eiga þriðjung í Marel
Stærstu hluthafar Marels eru Eyrir Invest, 24,7%, Lífeyrissjóðurinn Gildi, 5%, Lífeyrissjóður verslunarmanna, 5%, og Lífeyrissjóður starfmanns ríkisins, LSR, 5%. Alls eiga 2.500 hluthafar hlut í Marel en félagið er bæði skráð í kauphöllinni Nasdaq Iceland og kauphöllinni Eurunext í Amsterdam. Alþjóðlegir fjárfestar eru um þriðjungur af hluthöfum Marels.
Marel hefur verið eitt helsta flaggskip íslensks atvinnulífs síðustu áratugina – það hefur verið skráð á markaði í 33 ár og hefur vegið þungt í Úrvalsvísitölunni sem verðmætasta félagið lengi vel. Núna er það að næst verðmætast á eftir Alvotech.
Árni Oddur hætti mjög óvænt
Þeir Jón G. og Sigurður Már rekja söguna að þessum vendingum í Marel fyrir rúmu ári. En ein óvæntasta viðskiptafrétt ársins 2023 var síðla árs í fyrra þegar sagt var frá því að Árni Oddur Þórðarson hætti sem forstjóri Marels eftir að Arion banki leysti til sín hluta af bréfum hans í Eyri Invest og að Árni Sigurðsson, aðstoðarforstjóri, tæki við starfi hans.
Rót brotthvarfs Árna var gengishrun bréfa í Marel. Gengi bréfanna helmingaðist nánast frá því það toppaði í 956 kr. á árinu 2021. Þar sem eignir Árna eru að mestu bundnar í Eyri Invest, sem er með yfir 90% af fé sínu bundnu í Marel, fjaraði undan eiginfjárstöðu Árna í takt við verðhrun bréfa í Marel.
Þeir feðgar, Árni Oddur og faðir hans Þórður Magnússon, eru stærstu hluthafarnir í Eyri. Fram kom í fjölmiðlum í fyrrahaust að hlutur Árna Odds í Eyri hafi farið úr 18% í 13% efti veðkall Arion banka og að hlutur föður hans, Þórðar Magnússonar, hefði minnkað úr 20,7% í 16,2% í sömu aðgerð.
Talið er að JBT henti Marel mjög vel og að samruni þeirra geti orðið vísir að auknu virði félagsins.
Hér fyrir neðan má sjá brot úr nýjasta þætti Hluthafaspjallsins en til að sjá þáttinn í fullri
lengd mælum við með áskrift að efniveitunni Brotkast.is