Auglýsing

Meintur barnaníðingalisti reyndist uppspuni – Baráttuhópur í rógburði og ærumeiðingum

Á samfélagsmiðlum ganga nú listar á milli einstaklinga sem sagðir eru eiga uppruna sinn í gagnaleka frá þekktri alþjóðlegri vefsíðu sem hýsir nafnlaust ljósmyndir af einstaklingum, í flestum tilfellum ungum stúlkum sem ekki hafa náð lögaldri. Nútíminn fjallaði um málið á þriðjudaginn og greindi frá því að meintir íslenskir notendur umdeildrar vefsíðu, og birtust á umræddum lista, væru nú fjárkúgaðir.

Meintir íslenskir notendur umdeildrar vefsíðu fjárkúgaðir

„Tálbeituhópurinn“ svokallaði – ungir menn sem hafa leitt meinta barnaníðinga í gildru og barið þá til óbóta, segjast þó aldrei hafa fjárkúgað neinn en séu þó með lista sem þeir vinna eftir. Nútíminn hefur undir höndum tölvupóst með fjárkúgun sem barst einum þeirra sem nafngreindur er á umræddum lista sem er í dreifingu á samfélagsmiðlum. Það er þá í hrópandi mótsögn við drengina sem kallaðir eru „tálbeituhópurinn“ – en hvernig stendur á því?

Óljósum ásökunum dreift í fjölmennum Facebook hóp

Þegar betur er að gáð kemur í ljós að mesta dreifing á umræddum nafnalista er í facebook-hópnum „Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu“ – en mörg þúsund notendur eru í umræddum hóp. Þar er greint frá þessum „lista“ en sá sem gerir það fær að gera það undir nafnleynd með leyfi þeirra sem þar stjórna. Það í fyrsta lagi er mjög athyglisvert – miðað við þá ákvörðun stjórnenda hópsins mætti draga þá ályktun að þeir væru alveg 100% á því að umræddur listi væri sannur og að þeir sem kæmu þar fram væru sannarlega annaðhvort einstaklingar sem höfðu gerst sekir um að dreifa hefndarklámi eða hefðu staðið í leit að slíku.

Hvorugt er þó satt og rétt. Engar sannanir eru til staðar fyrir því sem haldið er fram í umræddum hópi. Engu að síður fær umræðan að halda sér þar inni og þeir sem setja spurningarmerki við birtingu listanna hafa verið bannfærðir úr hópnum.

Engar heimildir fyrir alþjóðlegum gagnaleka

En skoðum þetta betur. Hvaðan kemur þessi listi í raun og veru? Í flestum tilfellum þegar um er að ræða gagnaleka frá alþjóðlegum vefsvæðum þá er það frétt sem nær oftar en ekki út fyrir landsteinana. Lekinn kemur úr mörgum áttum og er oftar en ekki hýstur á fjölmörgum vefsíðum. Þá eru oft hópar einstaklinga sem sjá um að dreifa þeim á samfélagsmiðlum.

En hvernig er birting þessa lista samanborin við það? Hvert er hægt að rekja listann? Er einhver gagnaleki? Stutta og langa svarið virðist vera nei. Engar alþjóðlegar fréttir hafa verið sagðar af gagnaleka frá umræddri síðu og engar vísbendingar eru að finna um að umræddur nafnalisti hafi komið frá þeirri síðu sem hann er sagður koma frá. Reyndar virðist sú fullyrðing einungis koma frá einni tiltekinni heimild; TikTok-prófílnum „Ruglogbull“. Sá TikTok aðgangur gerir síðan út á, og er þekktur fyrir, að gera lítið úr fólki með stafrænu ofbeldi. Þar endar slóðin.

Ein manneskja á bak við dreifingu alvarlegra ærumeiðinga

Nútíminn hefur undanfarinn sólarhring lagt mikla vinnu í að rekja umrædda lista og er niðurstaðan sú að aðeins örfá vefföng og nöfn á honum séu raunveruleg. Þá er aftur ekkert sem sannar að umræddur listi sé á nokkurn hátt tengdur neinni tiltekinni síðu heldur virðist fólk einungis hafa orð TikTok aðgangsins Ruglogbull fyrir því. Þá hefur það í raun einungis verið ein manneskja sem hefur verið dugleg að dreifa listanum inn á facebook-grúbbuna „Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu“ en notendur þar virðast hafa nær undantekningalaust tekið upplýsingunum sem heilögum sannleik sem þarfnist engrar frekari rannsóknar.

Nútíminn hefur heimildir fyrir því að lögreglu hafi verið tilkynnt um málið þar sem einhverjir aðilar hafi ákveðið að leita réttar síns vegna rógburðs og ærumeiðinga.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing