Í Ástralíu er búið að kalla eftir afsögn ráðherra innflytjendamála eftir að sleppa þurfti rúmlega 150 ólöglegum innflytjendum úr haldi. Sky News segir að þar á meðal séu sjö morðingjar, 37 kynferðisafbrotamenn og 72 sem dæmdir voru fyrir alvarlegt ofbeldi.
Ástæða þess að sleppa þurfti mönnunum úr haldi er vegna nýlegs lagaúrskurðar þar sem hæstiréttur Ástralíu ákvað að ólöglegt væri að halda þessum mönnum um óákveðinn tíma þar sem ekki séu líkur á að hægt sé að flytja þá úr landi. Algengasta ástæðan sé að heimalandið neitar að taka við þeim, oftast vegna glæpasögu þeirra.
Einn þessara manna, Majid Jamshidi Douskoshkan, var sleppt úr haldi en er strax kominn í hendur lögreglu aftur eftir að hann var handtekinn ásamt tveimur öðrum fyrir alvarlega líkamsárás er þeir þóttust vera lögreglumenn og réðust á hjónin Ninette og Philip Simmons á heimili þeirra í Perth í Ástralíu.
Þeir létu svo greipar sópa um heimili þeirra og komust burt með skartgripi sem metnir eru á yfir 200.000 ástralska dollara.
Ninette, sem nýlega sigraðist á krabbameini og var enn að jafna sig eftir meðferðina, var slegin ítrekað í höfuðið þar til hún missti meðvitund og hlaut alvarlega áverka. Hjónin segjast vera slegin yfir þessu og óttist nú stöðugt um öryggi sitt.
Stjórnarandstaðan í Ástralíu hefur krafist skýringa á því hvernig svona mistök geta átt sér stað og hvernig ástralskur almenningur eigi að geta upplifað öryggi þegar slíkum fjölda ofbeldismanna er sleppt aftur út í samfélagið.
Þá hefur stjórnarandstaðan einnig kallað eftir afsögn ráðherra innflytjendamála.