Leigubílstjórar í Reykjanesbæ eru bálreiðir og segir einn þeirra að lögreglan, bæjarstjórn og Útlendingastofnun séu gjörsamlega gagnslaus þegar það kemur að því að sporna við ólöglegri starfsemi hælisleitenda í bæjarfélaginu. Málið snýst um „skutlara“ eða þá sem keyra fólk í bæjarfélaginu gegn gjaldi án þess að hafa leyfi til þess eða tryggðir fyrir þeim farþegum sem þeir aka.
„Þið megið kalla með rasista ef við viljið. Mér er alveg sama. Þegar ég bendi lögreglunni á þetta að þá er ekkert gert,“ segir Sigurður Jóhannsson, leigubílstjóri í Reykjanesbæ. Hann segir stöðuna sem uppi er grafalvarlega því ekki sé aðeins um ólöglega starfsemi að ræða heldur sé þetta hættulegur leikur sem verið sé að leika með því að horfa í hina áttina. Enginn af þeim sé tryggður, enginn hafi farið í gegnum sérstakt ökunám til þess að fá leyfi fyrir leigubílaakstri og þá sé ekkert vitað um þá sem stunda þetta í Reykjanesbæ annað en að þeir séu hælisleitendur.
Nú myndi einhver spyrja hvernig þú vitir það að þetta séu einungis hælisleitendur sem stunda þetta í Reykjanesbæ?
„Þetta er náttúrulega vinnan mín þannig að ég fylgist alveg með og ég sé alla þessa bíla lagða fyrir utan fjölbýlishús sem íslenska ríkið er með á leigu fyrir þessa einstaklinga sem koma hingað til lands og sækja um hæli,“ segir Sigurður sem er óhræddur við að stíga fram þrátt fyrir mikla hættu á því að hann sé úthrópaður rasisti.
„Já mér er alveg sama því ég veit betur. Konan mín er frá Namibíu í Afríku og svo lengi sem að hún heldur ekki að sé sé rasisti að þá er mér alveg sama. Þetta snýst ekkert um það.“
Áreita fólk inni á skemmtistöðum
„Þeir gera þetta þannig að þeir fara inn á skemmtistaðina í Reykjanesbæ og bókstaflega áreita fólk sem ætlar inn í löglegan leigubíl. Þá er nánast ómögulegt að fá stæði fyrir utan þessa staði því þeir eru mættir fyrstir og hanga svo þar til þess að geta veitt fólk inn í bílana sína. Ég hef líka horft á þá vera með skæting við fólk sem hefur ætlað sér að fara í löglegan leigubíl. Ótrúlegt en satt að þá í mörgum tilfellum er leigubíll ódýrari – þvert á það sem margir halda,“ segir Sigurður.
Hann segir að um tíu bílar séu notaðir í þessa ólöglegu starfsemi í Reykjanesbæ og að þetta hafi mikil áhrif á lifibrauð þeirra sem hafa sótt sér öll tilskilin réttindi og greitt hærri tryggingar en almenningur til þess að geta stundað þetta löglega. Þá telur Sigurður lögregluna hrædda við gagnrýni frá „samfélaginu“ og því sé ekki tekið á þessum málum.
„Hún þorir einfaldlega ekki að gera neitt í þessum málum af ótta við að vera kallaðir rasistar. Það reyndar þorir enginn að tjá sig um þessi mál því viðkomandi verður úthrópaður rasisti og rugludallur í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.“
Segir lögregluna „læka“ við auglýsingar
Fjölmargir deila sömu skoðunum og áhyggjum af stöðu mála – eins og í Facebook-hópi fyrir íbúa í Reykjanesbæ.
„Sigurður Jóhannsson alveg rétt hjá þér. Það væri nú einusinni gaman að sjá lögregluna á þessu svæði vinna vinnuna sína, nei hún gerir það ekki jafnvel læka lögreglumenn við auglýsingum skutlara og sviðstjórar hjá Reykjanesbæ gera eins, eru til skjáskots myndir af því.
Skutl er hluti af svartri atvinustarfsemi. líka eru bílarnir hjá þeim ótryggðir til farþegaflutnings gegn gjaldi þar með er þetta stór glæpur gagnvart farþegum þeirra sem lögreglan virðist styðja,“ segir Jökull Einarsson sem tekur fram í næstu færslu að hann er leigubílstjóri.
„Ég er leigubílstjóri hjá A-Stöðini og get sagt þér að bíllin minn hefur aldrei verið í röðinni upp í flugstöð, keyri eingöngu frá stöðinni hér. En ég hætti nánast að keyra á nóttunni þegar maður sá stuðning lögreglunnar við skutlarana. Ég ætla ekki að vera í samkeppni svarta atvinnustarfsemi sem nýtur stuðnings lögreglu og sviðstjóra hjá bænum.“